143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þetta með Fiskistofu sem ég heyrði að fyrrverandi utanríkisráðherra kallaði hér fram í og mat það sem svo að hv. þm. Ásmundur Friðriksson tæki hana fram fyrir. Ég held að það sé ekki rétt.

Hv. þingmaður nefndi sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem er mikið rætt, eðlilega. Það er viðkvæmt þegar er verið að róta og hreyfa við svo viðkvæmum grunnstofnunum heima í héraði, eðlilega.

Ég ítreka enn og aftur: Mat mitt er það að skipulag heilbrigðisþjónustunnar, uppbygging hennar, eins og við höfum horft á hana, stenst ekki þær kröfur sem það fólk sem er að mennta sig á þessum sviðum gerir í dag til þeirra starfsaðstæðna sem það vill hafa í heilbrigðisþjónustunni og kýs sér sem starfsvettvang. Við verðum að mæta þessum áskorunum.

Við sjáum birtingarmynd þessara breytinga í Vestmannaeyjum, að hluta til á öðrum stöðum á landinu sem ég ætla ekki að nefna, en Vestmannaeyjar hafa verið mikið í fréttum. Svar okkar hlýtur að vera það að reyna með einhverjum hætti að skipuleggja starfið í grunnþjónustunni þannig að við getum látið sérfræðinga og sérþekkingu flæða á milli svæða og staða, það er óhjákvæmilegt. Ég hef sagt það opinberlega að það fer enginn til mennta í 12–15 ár til þess að bíða á einhverjum stað til að fá að framkvæma hugsanlega eina aðgerð í faginu á ári. Viðkomandi einstaklingur vill nýta þá fjárfestingu sem hann hefur lagt í og stunda sín læknisverk sem oftast á hverjum (Forseti hringir.) einasta degi. Við verðum einhvern veginn að búa til slíkt umhverfi.