143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:56]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Það er afar nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn sem förum með skattfé almennings og berum ábyrgð á að því sé vel varið að vera opin fyrir öllum leiðum við rekstur hins opinbera sem geta gagnast vel.

Í því sambandi langar mig að tala um rekstrarfyrirkomulag á heilsugæslustöðinni í Salahverfi í Kópavogi. Salastöðin er mjög afkastamikil og hefur jafnframt gott aðgengi og veitir góða þjónustu. Það er sú einkunn sem landlæknisembættið gefur stöðinni í úttekt sinni árið 2009. Viðhorfskönnun sýnir einnig að ánægja sjúklinga þar með þjónustuna er mikil.

Í lok síðustu aldar fóru stjórnvöld víða um Vesturlönd að skoða þessa leið sem ég vil kalla útvistun ríkisins á rekstri heilbrigðisþjónustu til heilbrigðisstarfsfólks. Hlutverk hins opinbera er áfram að sjá til þess að fólk fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og hafa eftirlit með því en ekki endilega líka að reka þjónustuna. Salastöðin er einfaldlega til fyrirmyndar og vonandi verður þetta fyrirkomulag tekið upp á öðrum stöðum til að auka afköst og fá meira fyrir peningana sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið, fyrst og fremst til hagsbóta fyrir sjúklingana.

Annað mikilvægt mál er þjónustustýring í heilsugæslunni. Núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um að hrinda af stað vinnu sem miðar að því að stýra flæði sjúklinga milli heilsugæslusérfræðinga og sjúkrahúsa sem taki mið af þjónustuþörf. Þar gegnir heilsugæslan einmitt lykilhlutverki. Einnig verður tekin upp sameiginleg símavakt fyrir alla heilsugæsluna í landinu, ekki ósvipað og Neyðarlínan er hugsuð, þannig að hægt sé að stýra því betur hvert fólk leitar við þær aðstæður sem upp koma hjá því.

Það er ekki síst mikilvægt fyrir þá sjúklinga sem eiga við langvinna sjúkdóma að stríða að þjónusta til þeirra sem er veitt á svo mörgum þjónustustigum, þ.e. í heilsugæslunni, á stofnunum, meðal sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og á göngudeildum sjúkrahúsanna, sé alveg skýr, þ.e. hvert þeir eiga að leita. Eins og staðan er í dag gerist það því miður allt of oft að fólk leitar ekki á réttu staðina eftir þjónustunni. Þessu þarf að koma í lag. Það er óásættanlegt að sjúklingar notist við mjög dýr úrræði, t.d. á göngudeildum sjúkrahúsanna eða hjá sérfræðilæknum, þegar heilsugæslan gæti leyst vandamál viðkomandi sjúklings.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver verða næstu skref í þjónustustýringu? Eru áform um breytt rekstrarfyrirkomulag í heilsugæslunni?