143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið. Það sem hún gerir að umtalsefni er sá tónn sem hefur komið mikið fram í umræðunni, ekki bara í dag heldur líka síðustu daga. Hann hefur verið viðvarandi og lýtur að kostnaði sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni. Þátttaka sjúklinga er um það bil 19,6%, sú hin sama og var árið 1998. Hún lækkaði aðeins á árunum 2000–2007/2008 og hefur svo verið að fara í sitt gamla horf aftur, um 19,6%. Við erum þar hærri en næstu nágrannar okkar, þó svo að þetta sé dálítið breytilegt eftir löndum.

Mesti vandinn sem mér finnst heilbrigðiskerfið vera að glíma við og er í umræðunni er fjármögnunarvandinn við það verkefni að veita Íslendingum heilbrigðisþjónustu. Þá held ég að það sé orðið æ nauðsynlegra og brýnna núna að stokka upp þetta kerfi með það í huga að reyna að jafna þessum birgðum ef við ætlum á annað borð að taka gjald af sjúklingum fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég tel raunar ekkert annað fært. Jafnvel í þeim tengslum gætum við þurft að horfa til þess að taka upp einhvers konar sjúkratryggingagjald sem var síðast þegar ég vissi til umræðu einhvern tímann upp úr 1990. Í mínum huga er allt orðið undir í þessum efnum þegar við erum að leita ráða og grípa til aðgerða til þess að styrkja innviði þeirrar þjónustu sem ég kýs að segja (Forseti hringir.) að sé með mestu eftirspurnina eftir bótum í þeirri umræðu sem á sér stað þessa dagana.