143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ísland tekur þátt í alþjóðasamstarfi sem fullvalda þjóð og gætir íslenskra hagsmuna, bæði einstaklinga og lögaðila. Fullveldinu fylgja þannig bæði réttindi og skyldur og til utanríkismála leggjum við um 2% ríkisútgjalda á hverju ári. Það er lægra hlutfall en á Norðurlöndunum, sem við viljum helst bera okkur saman við, en það skýrist fyrst og fremst af því að þrátt fyrir ítrekaðan vilja Alþingis og stjórnvalda eigum við enn nokkuð langt í land með að ná viðmiðum alþjóðasamfélagsins um framlög til þróunarmála. Þannig verður framlag okkar til þróunarmála vel á fjórða hundrað milljónum króna lægra núna en samþykkt Alþingis gerði ráð fyrir. Það er vegna þeirrar ráðdeildarsemi sem boðuð er í frumvarpinu að hægt er á aukningu í málaflokknum.

Stór hluti ríkisútgjalda til utanríkismála er framlög okkar til alþjóðastofnana. Stærstur hluti þeirra er samningsbundinn og í flestum tilvikum taka framlögin mið af stærð aðildarríkja. Eðli málsins samkvæmt eru talsverðar sveiflur í þeim framlögum milli ára, m.a. vegna gengissveiflna.

Þegar framlögum til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana er sleppt stendur eftir að tæpt 1% ríkisútgjalda rennur til hinnar eiginlegu utanríkisþjónustu. Frá hruni hefur verið hagrætt til hins ýtrasta í þeirri starfsemi. Sendiskrifstofum var lokað og útsendu starfsfólki fækkað verulega í öðrum. Ráðist var í verulega hagræðingu í húsnæðismálum sem stendur enn yfir og umtalsverðum fjárhæðum skilað í ríkissjóð með eignasölu. Starfsemi utanríkisþjónustu er í eðli sínu gjaldeyriskrefjandi og því fullkomlega eðlilegt að ýtrustu leiða sé leitað til hagræðingar. Verður það haft áfram að leiðarljósi og 1,5% hagræðing boðuð í fyrirliggjandi frumvarpi. Gert er ráð fyrir að sendiráðin taki á sig stærra hlutfall af þeirri hagræðingu en annað í utanríkisþjónustunni. Vil ég í því samhengi leggja áherslu á að markmið okkar með rekstri utanríkisþjónustu er að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Eðli málsins samkvæmt útheimtir það talsverða fjármuni. Leggur það því þeim mun ríkari ábyrgð á okkur að ráðstafa þeim fjármunum með ýtrustu ráðdeildarsemi.

Við gætum hagsmuna íslenskra borgara erlendis. Á hverjum einstökum degi má reikna með því að tugir þúsunda séu erlendis í skemmri eða lengri dvöl. Utanríkisþjónustan hefur milligöngu um þjónustu íslenskra stjórnvalda við þessa Íslendinga. Flest eru málin einföld afgreiðslumál, milliganga um útgáfu skilríkja og vottorða, ýmiss konar lögvottanir vegna samskipta við erlend yfirvöld og miðlun margs háttar upplýsinga og minni háttar fyrirgreiðslna. Daglega fáumst við þó við stærri og flóknari aðstoðarmál og rekum sólarhringsvakt í ráðuneytinu til að bregðast við óvæntum neyðaratvikum. Þótt sum málanna rati í fjölmiðla eru þó flest þeirra rekin, eðli málsins samkvæmt, fjarri kastljósi þeirra. Það kemur ekki af sjálfu sér fyrir litla þjóð að gæta með þessum hætti réttinda borgara sinna á erlendri grundu en ég fullyrði að okkur hefur með útsjónarsemi og ráðdeild tekist það vel. Allt byggir þetta á starfsliði sendiskrifstofa okkar að ógleymdu neti um það bil 250 ólaunaðra kjörræðismanna sem eru tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir Íslendinga í vanda erlendis.

Í utanríkisráðuneytinu gætum við líka hagsmuna viðskiptalífsins. Fyrir fámenna þjóð sem býr á eyju í Norður-Atlantshafi felast miklir hagsmunir í greiðum milliríkjaviðskiptum. Utanríkisþjónustan vakir sífellt yfir því að tryggja óhindruð viðskipti milli landa. Hún hefur gert ótal milliríkjasamninga á því sviði og með góðu tengslaneti er hægt að bregðast skjótt við ef eitthvað bjátar á.

Utanríkisþjónustan stendur líka vörð um orðspor Íslands. Haustið 2008 vorum við minnt á hversu mikilvægt það er að orðsporið sé í lagi. Okkar fólk í utanríkisþjónustunni vinnur stöðugt að því að bæta orðspor landsins. Við viljum gefa þá ímynd að á Íslandi búi dugleg, gestrisin og vel menntuð þjóð sem vilji hlúa að einstakri náttúru landsins. Það er mikilvægt í ljósi þess að við öflum gjaldeyris með því að nýta náttúruna, fiskinn í sjónum, orkuna í fallvötnunum og jarðhita og svo höfum við tekjur af ferðamönnum sem hingað koma til að njóta fegurðar náttúrunnar.

Ekki verður minnst á orðspor án þess að minna á líka að það er lögvarið hlutverk utanríkisþjónustunnar að standa vörð um íslenska menningu erlendis. Það gerum við að sjálfsögðu í góðu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, kynningarmiðstöðvar íslenskra lista og aðra aðila sem láta sig málefnið varða.

Ísland tekur að öðru leyti virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Við nýtum svæðisbundið samstarf til að gæta ýmiss konar grundvallarhagsmuna í okkar nærumhverfi. Þátttaka okkar í starfi Norðurskautsráðsins og svæðisbundin fiskveiðistjórn varðar grundvallarhagsmuni okkar.

Auðlindamálin eru kjarnaatriði í okkar utanríkisstefnu og verða stöðugt samtvinnaðri umhverfismálunum. Við beitum rödd okkar til að tala fyrir gildum okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og fjölmargra annarra alþjóðastofnana, berjumst fyrir viðskiptahagsmunum okkar innan ramma OECD, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, EFTA og EES og tryggjum öryggi okkar með virkri þátttöku í milliríkjasamstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, ÖSE og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.

Hér er einungis minnst á brot af því víðtæka og margslungna alþjóðasamstarfi sem Ísland á aðgang að en hér gildir sem oft áður að svo uppsker hver sem hann sáir.