143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skörulega tölu og yfirlit yfir starfsemi ráðuneytisins. Kannski þakka ég honum helst fyrir að hafa farið fögrum orðum um þá ítarlegu ráðdeild sem beitt var í ráðuneytinu undir minni forustu í kjölfar hrunsins.

Það er hárrétt sem hæstv. ráðherra segir að utanríkisþjónustan eins og aðrar deildir ríkisins þarf alltaf að gæta ráðdeildar. Hins vegar er það svo að því fé sem er varið í gegnum utanríkisþjónustuna er vel varið. Utanríkisþjónustan hefur til dæmis á síðustu árum undir síðustu ríkisstjórn tekist að koma í veg fyrir harðar refsiaðgerðir gegn Íslandi á tveimur sviðum, bæði í upphafi þess kjörtímabils út af Icesave og síðan út af makrílveiðum. Það hefur meðal annars átt sinn þátt í því að Íslendingar hafa getað notið þeirrar nýju auðlindar. Það þurfa menn að hafa í huga þegar þeir eru stundum, eins og hefur borið á undir öðrum liðum í dag, að býsnast yfir þeim peningum sem þangað fara.

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðherra að hann lyfti því sem eru hans kjörlendur í utanríkisþjónustunni í dag. Hæstv. ráðherra hefur klárlega sýnt á þau spil sem hann vill ekki leika með, en mér fannst vanta í yfirferðinni og í fjárlagafrumvarpinu hvað það er sem hæstv. ráðherra hefur einsett sér að leggja áherslu á. Hæstv. ráðherra talaði í upphafi með mikilli áherslu á norðurslóðir. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir þau mál vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna aukna áherslu á þann málaflokk sem ég tel þó að við báðir deilum kappi og jafnvel ástríðu á.

Það sem veldur mér auðvitað sárustu vonbrigðum er að heyra það í máli ráðherra og lesa það í fjárlagafrumvarpinu að verið að víkja frá þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti einróma varðandi þróunarsamvinnu. Það var fyrsta áætlunin sem var lögð hér fram. Hún var samþykkt með þeim hætti að sá sem nú gegnir stöðu hæstv. utanríkisráðherra ásamt öðrum fulltrúum stjórnmálaflokkanna í utanríkismálanefnd framhlóð þá áætlun, þ.e. hann tók þátt í því að gefa í umfram það sem ég á sínum tíma taldi ráðlegt. Gott og vel. Ég fagna því auðvitað. Það leiddi til þess að á þessu ári eða á næsta ári hefði átt að verja til þróunarsamvinnu 0,28% af vergum þjóðartekjum, þ.e. 0,26. Það er hægt að færa rök að því að munurinn sé 385–425 milljónir. Það finnst mér ákaflega slæmt.

Ég er í stjórnmálum meðal annars til þess að reka þau erindi að leiðrétta félagslegt ranglæti og láta af höndum rakna fyrir hönd ríkrar þjóðar til þeirra sem eru fátækir og búa við verri lífsgæði heldur en ættu ella. (Forseti hringir.) Mér þætti vænt um að hlýða á hjá hæstv. ráðherra hvernig hann réttlætir þetta. (Forseti hringir.)