143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrrverandi ráðherra og virðulegum alþingismanni fyrir ágæta ræðu.

Auðvitað er alveg ljóst og enginn er að reyna að fela það að verið er að draga tímabundið úr framlögum til þróunarmála í fjárlagafrumvarpinu. Ef hv. þingmaður rifjar það upp man hann væntanlega að sá er hér stendur sem ráðherra hafði ákveðnar efasemdir um að rétt væri að auka svona mikið við þegar málið var afgreitt, en taldi engu að síður rétt að standa að þeirri afgreiðslu. Það hefur svo vitanlega komið í ljós að það er fullbratt miðað við þær aðstæður sem ríkissjóður býr við í dag. Þess vegna höldum við sömu prósentutölu og við vorum með, sem þýðir reyndar krónutöluaukningu, en erum í sjálfu sér ekki að hverfa frá áætluninni. Ég vil þó segja að ég held að full ástæða sé til að endurskoða áætlunina á einhverjum tímapunkti út frá þeirri stöðu sem hefur birst okkur varðandi stöðu ríkissjóðs.

Hv. þingmaðurinn spyr um norðurslóðir og áherslur þar. Það er alveg ljóst að utanríkisþjónustan starfar eftir áherslum ríkisstjórnar á hverjum tíma og ég verð að segja að það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig utanríkisþjónustan hefur brugðist við breyttum áherslum þar. Nú erum við að sjálfsögðu að færa áhersluna yfir á þessa málaflokka. Ég get ekki séð að það þurfi og taldi í rauninni ekki ástæðu til þess að vera með sérstakar óskir um breytt framlag vegna norðurskautsmála eða einhvers annars en er í frumvarpinu nú þegar. En til að gleðja hv. þingmann og aðra munum við og höfum fylgt eftir þeirri ákvörðun sem Alþingi tók varðandi það að opna ræðismannsskrifstofu í Nuuk og verður það gert 7. nóvember. Í því felst ákveðin yfirlýsing um að fylgja eftir þeim áformum og styrkir það sem þessi ríkisstjórn hefur sett fram og ætlar að vinna að.