143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferð hans á málaflokknum, en að þessu sinni fjallaði hann um utanríkismál. Ég vil segja það sem ég hef sagt áður í umræðum um fjárveitingar til utanríkismála að ég er í hópi þeirra sem telja mjög mikilvægt að halda uppi öflugri utanríkisþjónustu og málsvörn og hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðavettvangi, hvort sem það er gagnvart einstökum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum, bæði fyrir hönd ríkisins og íslenskra aðila, einstaklinga og lögaðila eins og ráðherrann gat um.

Ég tel líka að utanríkisþjónusta Íslands hafi í raun og veru náð miklum árangri þrátt fyrir að hún sé fámenn í sjálfu sér, eins og hér hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég sé ekki ofsjónum yfir þeim tæplega 2% af útgjöldum ríkissjóðs sem fara í málaflokkinn þótt menn geti alltaf deilt um einstaka forgangsröðun, verkefni og annað slíkt.

Það sem ég er kannski hvað ósáttastur við og ætti ekki að koma hæstv. ráðherra á óvart eru framlögin til þróunarsamvinnu Íslands. Við samþykktum í vor þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu fyrir árin 2013–2016, hún var samþykkt einróma. Það er að vísu rétt sem hæstv. ráðherra sagði að fyrirvarar voru við nefndarálit utanríkismálanefndar í vor af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þannig að því sé haldið til haga. Þeir lutu að fjármögnun málaflokksins þannig að í raun og veru gat maður gert því skóna þá þegar að ef þessir flokkar kæmust í ríkisstjórn yrði hugsanlega eitthvað dregið úr þessu þó ég hefði vonað í lengstu lög að svo yrði ekki.

Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sumt kom nú kannski fram í máli hans, hvað hann hugsar sér í þessu, hvort hann hugsar sér að koma með nýja tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á þeirri þróunaráætlun sem er í gildi — því hún er í gildi. Hún er þingsályktun og hefur gildi sem slík að mínu viti þó að hún sé þingsályktun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni koma með nýja og endurskoðaða áætlun.

Ég vil líka spyrja hvort hann hyggist falla frá þeim markmiðum sem þróunaráætlunin byggir á, þ.e. að við eigum að fara upp í 0,7% eins og viðmið Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir á tilteknu árabili, til 2019 ef ég man rétt. Hyggst hann halda sig við þau megináform í samþykkt Alþingis frá því í vor?