143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:35]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu.

Ísland er smáríki og við búum vissulega á eyju sem á ekki landamæri að öðrum löndum, en það breytir ekki þeirri staðreynd að handan við hafið er hinn stóri heimur sem við byggjum í raun og veru mjög mikið af okkar tilveru á að eiga við góð samskipti og gæfuleg.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina áðan og áherslu hans á mikilvægi utanríkisþjónustunnar og mikilvægi þeirra starfa sem þar eru unnin. Það kom ágætlega fram hjá hæstv. ráðherra að það eru í sjálfu sér ekki mjög miklar breytingar sýnilegar í fjárlagafrumvarpinu en samt vitum við að það eru ansi miklar breytingar í verkefnum núna þegar við höfum gert hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það væri gaman að heyra ráðherra útlista aðeins betur þetta breytta vinnulag, yfirferð á skipuriti og dótaríi, eins og hann orðaði það áðan, þegar kemur að því hvernig við munum verja og vinna með hagsmuni Íslands gagnvart Evrópu sem vissulega, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar hér á undan, eru enn þá okkar helstu viðskiptalönd og helstu samskiptalönd. Þótt ákvörðun hafi verið tekin um að setjast ekki við borðið eins og sagt er, alla vega ekki að sinni, breytir það ekki því að borðið er þarna enn þá og það skiptir enn þá meira máli að við gætum hagsmuna okkar utan borðs, ef svo má að orði komast.

Ég vildi einnig taka til þess að framlög til alþjóðastofnana eru nokkuð svipuð og lítið breytt á milli ára og ég fagna því. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höldum áfram að gæta hagsmuna okkar og taka þátt í alþjóðastarfi á fjölbreyttum vettvangi. En af því að gert er ráð fyrir hækkun á lið sem kallast mannréttindamál þar sem til stendur að fara í ráðstefnuhald og annað slíkt væri gaman að heyra hæstv. ráðherra lýsa helstu áherslum í mannréttindamálum og hvort það hafi orðið einhver breyting þar á.