143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:00]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fjárlagatillögum þeirra málaflokka sem ég sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á. Þar undir falla meðal annars orkumálin, nýsköpun og atvinnuþróun, viðskipta- og ferðamál, og í heildina litið eru útgjöld þessara málaflokka í kringum 7,7 milljarðar. Þess ber þó að geta að til viðbótar kemur sameiginlegur kostnaður við rekstur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Eins og mönnum er kunnugt eru þar tveir ráðherrar og þessi sameiginlegi kostnaður, sem er eitthvað í kringum 700 milljónir, deilist á milli okkar tveggja. Heildargjöld málaflokkanna sem slíkra eru í kringum 7,7 milljarðar.

Í þessum málaflokkum var lögð til 1,5% hagræðingarkrafa eins og annars staðar í ríkisrekstrinum. Hún nemur í kringum 136 millj. kr. og náði þar með þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér. Til viðbótar voru felldir niður fjármunir vegna þess að talsvert af þeim málaflokkum sem undir þetta ráðuneyti heyra var í svokallaðri fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar sem við í þáverandi stjórnarandstöðu gagnrýndum harðlega á sínum tíma fyrir að vera ófjármögnuð. Það hefur komið á daginn að ekki reyndist innstæða fyrir henni jafnvel þótt menn geti verið sammála um að þar hafi mörg ágætisverkefni verið á ferð. Það markmið sem þessi ríkisstjórn leggur á, að loka fjárlagagatinu, samrýmist ekki þeirri stefnu að ávísa út í framtíðina þeim verkefnum sem ekki reyndist stöndug fjármögnun fyrir.

Við vinnslu þessara fjárlaga lagði ég áherslu á að verja tvennt, uppbyggingu atvinnu og nýsköpunarmálin. Þegar horft er á fjárlagatillögurnar legg ég til að menn beri saman árin 2012 og 2014 vegna þess að það gefur miklu betri mynd af því sem raunverulega er að gerast. Fjárfestingaráætlunin og öll sú innspýting var byggð á sandi og þess vegna er miklu réttari samanburður að fara í stöðuna og skoða hvernig hún var áður en sú áætlun var lögð fram.

Þá vil ég fara aðeins yfir málaflokkana. Í nýsköpunarmálunum lagði ég áherslu á að verja framlög til Tækniþróunarsjóðs og þau voru aukin miðað við árið 2012, framlög til sjóðsins voru hærri. Sú 500 millj. kr. innspýting sem fjárfestingaráætlunin tók til var skorin niður um 265 milljónir þannig að núna er tæpur milljarður í sjóðnum sem er aukning frá því sem var árið 2012 þegar hann var í kringum 700 milljónir.

Endurgreiðslur og skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar standa, það er enginn niðurskurður á þessu ári í því nema sem nemur 1,5% hagræðingarkröfunni. Ef ég held mig við nýsköpunina erum við að vinna að nýjum aðgerðum innan ríkisstjórnarinnar, í fjármálaráðuneytinu er verið að huga að skattafslætti vegna hlutabréfakaupa, það er unnið að því að auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í óskráðum félögum, og brýnasta verkefnið í þessu er að huga að því hvernig hægt sé að auka áhættufé. Nærtækast er að skoða aðkomu til dæmis lífeyrissjóða að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Annar vaxtarsproti í íslensku samfélagi sem að mínu ráðuneyti snýr er kvikmyndaiðnaðurinn, endurgreiðslurnar vegna kvikmyndagerðarinnar eru óbreyttar á milli ára og hafa ekki tekið niðurskurði.

Aðeins að ferðamálunum. Tímabundna markaðsátakið Ísland allt árið, Inspired by Iceland, átti að renna út á þessu ári, það var tímabundið átak til þriggja ára. Ég lagði til að það héldi áfram með lækkuðum fjárveitingum. Það verða 200 milljónir af ríkisfé í stað 300 milljóna áður og sambærilegt framlag frá fyrirtækjunum á móti eins og verið hefur. Enn fremur vil ég geta þess að markaðsátakinu í Norður-Ameríku, Iceland Naturally, verður haldið áfram til þriggja ára.

Framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru hærri en hið nefnda ár 2012, við erum að vinna að gjaldtökumálum í ferðamennskunni í heild og málefni sjóðsins þarf að skoða í samhengi við þá vinnu.

Það eru fjölmörg önnur mál sem mig langaði að nefna og ég treysti því að þingmenn komi hingað og gefi mér tækifæri til að svara spurningum sem verða vonandi um þau atriði sem ég komst ekki yfir í framsögunni.