143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta verður kannski ekki mjög auðvelt vegna þess að hæstv. ráðherrann. gengur út frá einhverju allt öðru en við gerum og segir að fjárfestingaráætlun sem samþykkt var á síðasta þingi hafi verið byggð á sandi og ekki hafi verið til fjármagn fyrir henni og þess vegna ætli hún bara að sleppa því og bera saman 2012 og 2014. En það er náttúrlega ekki ráðherranum að kenna vegna þess að þetta plagg hérna er óskiljanlegt, og ekki bara í ár, uppsetningin er — (Gripið fram í.)þessari bók hérna — frekar óskiljanleg. Ég fagna því að það mun vera ætlunin og verið sé vinna að því að reyna að setja þetta betur upp.

Ég er sem sagt ekki sammála hæstv. ráðherranum um að fjárfestingaráætlunin hafi verið byggð á sandi og undrast því að hæstv. ráðherra sem hefur mikinn áhuga á því að byggja hér upp atvinnu skuli ekki hafa lagt meiri áherslu á það en raun ber vitni að nota fé sem gæti komið frá atvinnuvegum í landinu sem hafa efni á því til að veita inn í nýjar veikar atvinnugreinar. Ég held að enn sé í gildi setning sem var skrifuð í smásögu fyrir meira en 100 árum um að peningar séu afl þess sem gera skal.

Því miður er þess ekki að finna stað í tillögunum hér um nýjar atvinnugreinar sem þarf að veita fé til til að hjálpa af stað. Ég vil líka nefna í því sambandi að í orði er talað um að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, síðan eru skorin niður fjárframlög sem gætu orðið til þess að hjálpa slíkum fyrirtækjum og svo er til dæmis tryggingagjaldið lækkað mun minna en ég geri ráð fyrir að fólk hafi átt von á frá hæstv. fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum.

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja um markaðsátak um landbúnaðarafurðir í Norður-Ameríku því að það er algjörlega óskiljanlegt sem stendur á bls. 332 að á liðnum Markaðssetning Íslands í Norður-Ameríku sé annars vegar gert ráð fyrir að það falli niður 70,6 milljónir og svo kemur tveimur línum seinna að hins vegar sé gert ráð fyrir að veitt verði 70,6 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til markaðssetningar í Norður-Ameríku. (Forseti hringir.)

Er það þá til annars fyrirtækis en hefur verið hingað til? Þetta er mér óskiljanlegt.