143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gott að geta átt orðastað við þann ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem fer með iðnaðarmál, orkumál, ferðamál, nýsköpun o.fl. Ég ætla að halda mig aðallega við þann geira.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvernig samrýmist það mat manna á þörf fyrir uppbyggingu og fjárfestingu í innviðum ferðaþjónustunnar að skera Framkvæmdasjóð ferðamannastaða niður við trog, þó að vísu séu settar inn 150 millj. kr. þangað aftur? Er það ekki í svo hrópandi mótsögn við alla umræðu sem verið hefur hér í landi undanfarin missiri og stóraukna fjölgun ferðamanna, ört vaxandi fjölgun, að bakka nú út úr því uppbyggingarátaki sem þó var hafið? Hvernig útskýrir ráðherra ferðamála þetta? Hvernig er það réttlætanlegt miðað við áhyggjur manna af því að átroðningur og álagið sé svo mikið að við séum að fara þar alveg fram af brúninni?

Í öðru lagi varðandi Tækniþróunarsjóð finnst mér þyngra en tárum taki að þar skuli menn ætla að draga úr og lækka framlög í hann um 265 millj. kr. En ráðherra talar eins og það sé sérstakt örlæti að skilja tæpan helming eftir af því sem bætt var í sjóðinn í fyrra. Ég hef þó öllu meiri áhyggjur af því sem kemur fram í greinargerð fjárlagafrumvarpsins en þar segir nefnilega og eiginlega hrósa menn sér af því að framlögin séu þó ekki felld niður að fullu fyrr en 2016. Er það stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr þessum framlögum jafnt og þétt næstu þrjú árin þannig að Tækniþróunarsjóður verði árið 2016 kominn niður í það svartasta lágmark sem menn neyddust til að fara með hann í í botni kreppunnar? Er það metnaðurinn?

Í þriðja lagi talar hæstv. ráðherra um að stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki, endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar hafi gefist vel. Já, við komum því á á botni kreppunnar 2010, en nú ætlar núverandi ríkisstjórn að draga úr þeim stuðningi. Það á að lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20% í 15%. Þetta er metnaðarleysi. Höfum við ekki efni á því að fjárfesta í þessari nýsköpun? Er ekki ánægjulegt að útgjöldin aukist vegna þess að það er ávísun á að nýsköpunar-, rannsóknar- og þróunarstarfið er kraftmeira? Þar er verið að byggja upp og fjárfesta inn í framtíðina.

Ég spyr um markaðsátak í ferðaþjónustu. Við komum því líka á á botni kreppunnar 2010 og settum 300 millj. kr. í það á móti greininni að hefja sókn í ferðaþjónustu og færðum það svo yfir í að sækja fram á veturna. Nú er dregið úr, 100 millj. kr. niður og sagt: Ríkið tekur 1/3 og greinin 2/3. Er búið að semja um það við greinina? Eru þeir til í þessi býtti?

Hæstv. ráðherra var að tala um samanburð við 2012. Eigum við að tala um samanburð við 2010 eins og ástandið var þá? Þá lögðum við samt af stað með þessa hluti eins og markaðsátak í ferðaþjónustu og lög um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar.

Ef hæstv. ráðherra hefði tíma væri fimmta atriðið metnaðurinn í sambandi við niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Hvernig fer það í hæstv. ráðherra að draga úr því um 75 millj. kr.?