143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:20]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er spurt að mörgu og ég ætla að vinda mér í þetta. Ferðamál og fjölsóttir ferðamannastaðir. Það er alveg rétt að þetta hefur verið mikið í umræðunni og þess vegna vil ég benda hv. þingmanni á að það er einmitt það sem er verið að gera. Við erum að koma með tillögur núna sem verða útfærðar og komnar í frumvarpsform eftir áramótin, strax að loknu jólahléi, þar sem gjaldtökumál, uppbygging á fjölsóttum ferðamannastöðum og dreifing álagsins eru tekin sérstaklega til skoðunar.

Ég bendi á, burt séð frá aukningunni sem var í margnefndri fjárfestingaráætlun, sem var byggð á sandi eins og ég hef sagt, fjármögnunin var byggð á sandi, voru árið 2012 40 millj. kr. til uppbyggingar. Við bættum núna í miðað við það, ef við tökum fjárfestingaráætlunina út fyrir sviga — sem ég vil gera vegna þess að hún er og var alla tíð algjörlega óraunhæf. Þá erum við að horfa á að við erum með tæpar 220 millj. kr. til þessara mála. Auðvitað gætum við beðið um mun meira, en þetta tel ég vera vel rýmilegt miðað við hvernig úthlutanir standa í sjóðnum.

Varðandi Tækniþróunarsjóð var það mér mjög mikið metnaðarmál að halda einmitt við hann og styðja við hann. Þess vegna varð úr að bætt var við hann frá því sem var fyrir fjárfestingaráætlun einmitt vegna þess að hann er að virka.

Aðeins um markaðsátakið í ferðaþjónustunni. Það er verkefni sem hefði átt að renna út, það var bara til þriggja ára, síðasta ríkisstjórn bjó þannig um hnútana. Við tókum þá ákvörðun að framlengja markaðsátakið. Við tókum það hins vegar niður í samræmi við þá stefnu sem við höfum um hagræðingu í ríkisrekstri. Varðandi spurninguna um það sem kemur fram í greinargerðinni vil ég leiðrétta það og fór yfir það áðan. Skiptingin er ekki 1/3 og 2/3, það verður króna á móti krónu og átakið verður þá 400 millj. kr. í heildina.