143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Já, þar með er verið að draga úr þessu um 1/3 og metnaðurinn er ekki meiri en sá. Ég tel að það sé rangt vegna þess að það hefur þegar sýnt sig að sóknin inn á vetrarmánuðina og slaka tímann sem hefur verið í gangi undanfarin tvö ár hefur skilað miklum árangri.

Frú forseti. Við erum að ræða þessi mál í 24. viku sumars og við nálgumst 19. sunnudag eftir trinitatis. Það eru bara þó nokkrir mánuðir síðan ný ríkisstjórn kom til valda. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi endalausa tugga um að vegna þess að fyrri ríkisstjórn lagði einhverja hluti til þá skipti það engu máli, þá þurfi núverandi ríkisstjórn enga afstöðu að taka til þess hvort eitthvað sé gott eða vont. Nei, við bara sláum það af út af því að þetta var hjá fyrri ríkisstjórn og af því að þetta var í fjárfestingaráætlun frá fyrri ríkisstjórn. Þá getum við með góðri samvisku skorið niður stuðning við nýsköpun og þróun, uppbyggingu á ferðamannastöðum, Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Við erum alveg saklaus af því, við berum enga ábyrgð af því að þetta voru einhver áform fyrri ríkisstjórnar.

Er það svona sem menn nálgast ábyrgð sína, pólitíska ábyrgð sína og líta á völdin þegar þeir hafa tekið við þeim og eru orðnir að ríkisstjórn og meiri hluta á Alþingi, sem ber auðvitað pólitíska ábyrgð á hinni efnislegu niðurstöðu sem verður í fjárlagafrumvarpi hvers tíma? Það er engin afsökun, það er ekkert skjól í svona löguðu. Ef menn telja verkefnin góð og og þörf eiga þau ekki að gjalda þess að hafa verið í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Og vel að merkja, það er núverandi ríkisstjórn sem að stærstum hluta hefur kippt fótunum undan með því að t.d. stórlækka sérstök veiðigjöld, sem voru sérstaklega eyrnamerkt að ganga inn í þessi mál.

Auðvitað eru aðrar leiðir til. Hvað hefðu aðilar vinnumarkaðarins sagt ef ríkisstjórnin hefði komið til þeirra og sagt: Nú er atvinnuleysið að lækka, eru menn til í það að við tökum 0,2% af tryggingagjaldinu og setjum það í þessa uppbyggingu, þessa fjárfestingu og nýsköpun? Það lækkar þá að vísu minna. En það gerir ríkisstjórnin ekki. Án þess að tala við aðila vinnumarkaðarins hirðir hún yfir í ríkissjóð 1,38% af tryggingagjaldi.