143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:27]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að svigrúm Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til fjárfestinga er takmarkað og ríkissjóður vart í færum til að leggja honum til aukið fjármagn í nánustu framtíð. Það gæti hins vegar vel hentað lífeyrissjóðum að eignast nýsköpunarsjóð, sjóð sem er í góðum rekstri og hefur á að skipa hæfu starfsfólki. Ríkissjóði veitir sannarlega ekki af þeim milljörðum sem sala á sjóðnum gæti skilað.

Lífeyrissjóðir þurfa ár hvert að fjárfesta fyrir um það bil 130 milljarða og væri eðlilegt að 1–2 milljarðar færu í nýsköpunar- og vaxtarfyrirtæki. Það mundi efla nýsköpun í landinu til muna, skapa fleiri vel launuð störf, auka hagsæld þjóðarinnar og bæta ávöxtun lífeyrissjóðanna.

Því vil ég spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort hún telji það ekki geta komið til álita að skoða sölu á Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til lífeyrissjóðanna.