143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst þessi liður, Iðja og iðnaður. Það er rétt hjá hv. þingmanni með aukninguna. Þetta er, hvað á ég að segja, ekki safnliður en svona liður sem inniheldur ólíka liði. Ástæða þess að þetta hækkar eru einmitt framkvæmdirnar við Bakka, lög sem voru samþykkt á Alþingi í fyrravor. Þessi fjárveiting er til komin vegna undirbúningsvinnu sem þurfti að fara í í sumar. Það voru framlög vegna rannsókna vegna hafnargerðar og vegalagningar. Þessir fjármunir fóru í það og, já, það eru frekari fjárútlát ætluð vegna þessarar framkvæmdar. Mig minnir að heildarívilnunarpakkinn sé í kringum 3 milljarðar sem samþykktur var með sérlögunum um Bakka. Jarðgöng, vegtengingar, hafnir og skattalækkanir voru í þeim lögum.

En aðeins varðandi nýsköpunina vil ég fullvissa hv. þingmann um að við deilum áhuga á nýsköpun og eflingu hennar. Þegar fyrsta krafan í þessu fjárlagafrumvarpi var að fjárfestingaráætlunin færi út, hún var ófjármögnuð eins og margítrekað hefur verið, voru ákveðin atriði sem ég lagði sérstaka áherslu á að yrði bæði viðhaldið og styrkt. Tækniþróunarsjóðurinn og skattaívilnanirnar til nýsköpunarfyrirtækja voru slík atriði sem ég lagði áherslu á að við mundum halda og viðhalda. Eins og fram kom í umræðum hér áðan erum við að leita leiða til þess að auka við tækifæri til að efla áhættufjármögnun eða styrkja þá sjóði sem lána og (Forseti hringir.) fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Hv. þingmaður getur verið fullviss um að við erum saman í þessari baráttu.