143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Heildargjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2014 eru áætluð rúmlega 76 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 9,4 milljarðar kr. en þær nema 12,4% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru um 66,7 milljarðar kr. og af þeirri fjárhæð eru um 64 milljarðar kr. fjármagnaðir með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2,4 milljarðar kr. innheimtir af ríkistekjum. Í frumvarpinu dragast útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins saman um liðlega 3,5 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2013, en þegar einnig er tekið tillit til áhrif á almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöldin um 2 milljarða kr. á milli ára eða sem svarar til 2,9%

Fjárveitingar til verkefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins markast af því að gert er ráð fyrir aðhaldsráðstöfunum í frumvarpinu í samræmi við áform um að bæta afkomu ríkissjóðs en einnig er um að ræða að fallið er frá nýlegum framlögum til verkefna sem ýmist eru ekki hafin eða eru komin stutt á veg. Þar er einkum um að ræða verkefni í svonefndri fjárfestingaráætlun í fjárlögum ársins 2013 sem áttu að byggjast á sérstakri tekjuöflun sem mun ekki ganga eftir.

Helstu framlögin af þessum toga eru framkvæmdir við Hús íslenskra fræða og verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands sem er slegið á frest um sinn. Enn fremur mun fyrirhuguð hækkun á framlögum Kvikmyndasjóðs og ýmissa minni sjóða á sviði menningar og lista ganga til baka. Sama gildir að hluta til um framlög til Rannsóknasjóðs. Í þessu samhengi skal þó nefnt að lögð er til 70 millj. kr. hækkun til Kvikmyndasjóðs í samræmi við gildandi samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð.

Útfærsla ráðuneytisins á almennri aðhaldskröfu er með nokkuð misjöfnum hætti eftir málaflokkum. Rauði þráðurinn er þó sá að reynt er af fremsta megni að standa vörð um lögbundin verkefni, grunnstarfsemi og lykilstofnanir. Á háskólastigi er gert ráð fyrir að draga úr beinum framlögum til kennslu og rannsókna í háskólum en aukinni innheimtu ríkistekna. Háskólastigið stendur frammi fyrir miklum áskorunum, innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur farið fram ítarleg greining á fjárhagsstöðu háskóla og hefur sú vinna kallað á forgangsröðun á mörgum sviðum ásamt umtalsverðum niðurskurði, m.a. til háskóla- og vísindamála.

Að frumkvæði ráðuneytisins hefur einnig verið unnið mikið starf að endurskoðun á áherslum og skipulagi háskólakerfisins auk þess sem vísinda- og tækniráð hefur ályktað um þessi mál. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir auknu samstarfi háskólanna um námsframboð og rekstrarþætti en þótt ýmsu hafi verið komið til leiðar má gera ráð fyrir að erfitt verði að halda rekstri skólanna óbreyttum. Unnið er að úrlausn þessa verkefnis í góðu samráði við háskólana og má gera ráð fyrir að fyrirkomulag reksturs einstakra skóla taki nokkrum breytingum á fjárlagaárinu 2014.

Þrátt fyrir aðhaldskröfu verður staðið við 300 millj. kr. hækkun á framlagi í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og Alþingis. Sú hækkun er einnig í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá 465 millj. kr. af áformaðri 750 millj. kr. hækkun framlaga til rannsóknasjóða á málefnasviði ráðuneytisins. Þannig er fallið frá nýju 200 millj. kr. framlagi sem veitt var í markáætlun á sviði vísinda og tækni, og sömuleiðis 265 millj. kr. af 550 millj. kr. hækkun framlags til Rannsóknasjóðs. Bæði framlögin voru veitt samkvæmt svonefndri fjárfestingaráætlun í fjárlögum ársins 2013. Í tilviki Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eru framlögin þó ekki felld niður að fullu vegna áherslna stjórnvalda á stuðning við rannsóknir og þróun. Með þessu móti verður eftir sem áður 285 millj. kr. hækkun á framlagi í sjóðinn.

Rekstur framhaldsskóla hefur verið þungur undanfarin ár vegna aðhaldsaðgerða. Ljóst er að ekki verður lengra haldið án breytinga á skipulagi námsframboðs og þjónustu framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að ráðist verði að nokkru í slíkar breytingar haustið 2014. Hagræðingu á framhaldsskólastigi er annars mætt þannig að gert er ráð fyrir að dregið verði úr tímabundnum framlögum. Árétta verður að áfram verður greitt fyrir þá nemendur sem skráðir hafa verið í framhaldsskóla undir átakinu Nám er vinnandi vegur.

Breytingar á fjárveitingum til einstakra framhaldsskóla skýrast að mestu leyti af breytingum á nemendafjölda, breytingum á húsnæðisframlagi í nokkrum tilvikum og sérverkefnum. Þannig hefur tekist að mestu að tryggja óbreytt framlag til reksturs stofnananna.

Við skiptingu hagræðingarkröfu til menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála var leitast við að hlífa lögbundinni starfsemi og grunnstarfsemi. Hér er fylgt sömu stefnu og í fjárlagafrumvörpum síðustu ára til að verja eftir mætti þá undirstöðu sem byggð hefur verið upp og þarf að vera til staðar þegar betur árar í ríkisfjármálum. Einkum er lögð áhersla á að standa vörð um helstu menningarstofnanir og grunnstarfsemi almennt.

Fram undan er þátttaka íslenskra íþróttamanna og -kvenna á stórmótum erlendis á næstu árum og auk þess er undirbúningur smáþjóðaleikanna sem haldnir verða hér á landi 2016 þegar kominn á skrið. Í því ljósi eru framlög í Afrekssjóð hækkuð auk þess sem inn kemur sérstakt framlag til undirbúnings smáþjóðaleikunum.

Virðulegi forseti. Mér er það ljóst að til ýmissa góðra mála verður minna fé til taks á næsta ári en ýmsir bjuggust við. Á það einkum við um smærri sjóði á sviði skapandi lista og greina. Vonandi kemur til þess á næstu árum að úr rætist í samræmi við batnandi stöðu þjóðarbúsins.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fá hér tækifæri til að svara spurningum hv. alþingismanna um málaflokkinn.