143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ég les fjárlagafrumvarpið og hlusta á ræðu hæstv. ráðherra menntamála hvort horft sé til framtíðar í frumvarpinu. Ég velti því fyrir mér þegar menntun er annars vegar hvaða áhrif þær tilraunir sem gerðar hafa verið um breytingar á lánasjóðnum hafa, hvaða áhrif þær munu hafa og hverjir eigi aðgang að námi. Ég hef líka velt fyrir mér háskólastiginu og ýmsum rannsóknarstyrkjum. Ég ætla í þessari fyrri atlögu að einbeita mér að þeirri vinnu sem unnin var af fjölda fólks úr breiðum hópi á síðasta kjörtímabili varðandi skapandi greinar, nýjar atvinnugreinar sem ekki eru bundnar kvótum eða takmörkunum með sama hætti og hefðbundnar atvinnugreinar eins og í landbúnaði og sjávarútvegi og einnig með áherslu á tækni- og iðngreinar.

Tæp þrjú ár eru síðan það kom út tímamótaskýrsla um hagræn áhrif skapandi greina, skýrsla sem kynnt var þjóðinni, og það var í desember 2010. Þar var leitt í ljós í fyrsta sinn að skapandi greinar eru einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar með veltu, að því er skýrslan sagði, árið 2009 upp á allt að 189 milljarða kr. Þar af var framlag ríkis og sveitarfélaga aðeins 12,5% eða tæplega 24 milljarðar kr. Skýrslan vakti mikla athygli á þeim tíma og forustufólk allra stjórnmálaflokka brást við með jákvæðum hætti. Hugtakið skapandi greinar ruddi sér til rúms í stjórnmálaumræðunni og hér á hinu háa Alþingi hafa allir stjórnmálaflokkar viljað sjá ljósið, lofað listirnar og menninguna fyrir hið óáþreifanlega sérstaka gildi sem hún ber með sér, en einnig séð hinn efnahagslega ávinning sem listir sem rót skapandi greina eru. Þarna er auðvitað lögð áhersla á að vera ekki að flokka atvinnugreinar sem góðar eða slæmar eftir því hvort þær eru listgreinar, álframleiðsla eða sjávarútvegur.

Í framhaldinu komu fram skýrslur, það kom svokölluð 1. des.-skýrsla um afrakstur sameiginlegs átaks forustufólks í skapandi greinum og stjórnvalda. Í kjölfar hennar hófst umfangsmikið samstarf atvinnugreinarinnar og stjórnvalda við að greina tækifæri og ræða hvaða möguleikar væru til sóknar á þeim sviðum. Um var að ræða annars vegar stuðning við þróun og sköpun nýrra hugmynda og hins vegar stuðning við hinn endann á virðiskeðjunni þar sem frumkvöðlar með þegar tilbúin hugverk voru að koma sínum vörum á markað.

Í það voru lagðir umtalsverðir peningar og spurningin er hvernig hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir sér að unnið verði áfram að þeim málum nú þegar þau hafa verið valin með þeim rökum að þau séu ný og þar af leiðandi verði þeim bara hent. Hvernig ætlar hann að tryggja að greinarnar fái framgang bæði í menntakerfinu og í okkar nýja umhverfi sem framtíðargreinar?

Ég byrjaði á því að spyrja: Er horft til framtíðar? Ég sé ekki á þeim málum sem hér koma fram að það sé gert af hálfu hæstv. (Forseti hringir.) menntamálaráðherra þannig að ég bíð spenntur eftir að heyra hvernig hann sér að menn vinni úr þeim málum til framtíðar.