143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þar sem áréttað var og athugasemdir gerðar um innritunargjöldin er rétt að halda því til haga að sé litið til innritunargjaldanna árið 2005 og þau síðan verðbætt til dagsins í dag ættu þau að standa í 78.501 kr., en tillagan er 75 þús. kr. og er hún fengin frá háskólanum sjálfum.

Hvað varðar breytt rekstrarfyrirkomulag háskólanna hef ég sagt það opinberlega oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég tel að það sé fullmikið í lagt fyrir 320 þús. manna samfélag að halda úti sjö háskólum. Það er töluverð vinna að skoða það. Það tilheyrir líka spurningunni um rekstrarformið, hvaða rekstrarform er heppilegt fyrir þá skóla sem eiga að vera hér starfandi er farið verður í einhvers konar sameiningar eða aukna samvinnu þeirra skóla sem fyrir eru. Meira get ég ekki sagt um það í bili, virðulegi forseti.

Hvað varðar innleiðingu breytinga í framhaldsskólana er alveg hárrétt að það þýðir auðvitað að ef minni fjármunir eru til verksins hægist á því. Þá verð ég líka að segja, virðulegi forseti, að það sem er reynt að gera með þessu frumvarpi er að verja grundvallarstarfsemina, verja starfsemina sjálfa. Þess vegna eru framlög til framhaldsskólanna ekki lækkuð. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2007 sem framlög til framhaldsskólanna eru ekki lækkuð. Auðvitað breytast þau milli skóla vegna breytinga á nemendafjölda og slíku, en heildartalan fyrir framhaldsskólana var ekki skert núna. Það er í fyrsta sinn síðan 2007 og það er mjög ánægjulegt. Það gerir það að verkum að ýmis önnur verkefni sæta um leið líka niðurskurði.

Hvað varðar myndlistarsjóðinn er það alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að hann er á núlli. Það eru lög um þennan sjóð. Sjóðurinn er áfram til samkvæmt lögum þó að ekki sé útdeilt úr honum. Það er ekki í honum fjármagn en sjóðurinn sjálfur er til, um það fjalla lögin. Það er það sem skiptir máli þar.

Hvað varðar hönnunarþáttinn er það alveg rétt að það sama gildir og um hina sjóðina – þeir fara á núll núna. Ég hafði það sem lokaorð í ræðu minni hér áðan að auðvitað vænti ég þess að þegar hagur þjóðarinnar fer að eflast myndist fyrir okkur tækifæri til þess að bæta þar í og það verði sem fyrst.