143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Nám er vinnandi vegur þá er rétt að vekja athygli á ákveðinni staðreynd: Nemendaþróunin sem hér er um að ræða eða fjöldi nemenda sem um ræðir er inni í þessum átökum. Annars vegar eru nemendur sem hafa gert námssamning við VMST. Þróunin þar hefur verið sú að haustið 2011 var um að ræða 496 nemendur. Haustið 2013 níu. Það hefur orðin veruleg breyting þar á. Hins vegar hvað varðar nemendur á aldrinum 18–24 ára var skapað svigrúm til að mæta umframársnemendum. Þegar við skoðum þá þróun var hún þannig að þeir skólar sem tóku við þessum hópum, sem voru eingöngu fjölbrautaskólar með mikið starfsnám, sýndu á árinu 2012 samkvæmt áfangalistum 516 umframnemendur. Núna á vorönn 2013 voru þeir komnir niður í 145. Það er rétt að hafa þessa tölfræði í huga þegar við ræðum verkefnið Nám er vinnandi vegur, þ.e. þessar breytingar, annars vegar úr 496 nemendum niður í níu og hins vegar úr 516 niður í 145.

Ég lagði mikinn metnað í það að þurfa ekki að skera niður rekstur framhaldsskólanna. Það var grundvallaratriði. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2007 sem það er ekki gert.

Virðulegi forseti. Hvað varðar Fjölbrautaskólann á Suðurlandi er hér um að ræða frestun. Það er ekki verið að slá verkefnið af, það er verið að fresta því.

Hvað varðar Hóla er staðan sú að Hólar fá það framlag sem þeim ber samkvæmt því reiknilíkani sem gildir um dreifingu fjármuna á milli háskólanna. Það falla niður tímabundin framlög eins og vera ber þannig að framlagið er bara í samræmi við reiknilíkanið.