143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóðar skýringar en vænti þó svara við spurningunum sem eftir standa og langar að bæta við einni spurningu.

Aðgengi að háskólum í fjarnámi er gríðarlega mikilvægt og ekki síst í ljósi þess að samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands hafa 40,9% íbúa á aldrinum 25–64 ára á höfuðborgarsvæðinu lokið háskólanámi en einungis 24,7% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Mig langar að spyrja hver staðan er varðandi framlög til fjarkennslu fræðsluaðila sem bjóða aðgengi að námi á háskólastigi.

Fjárlögin eru niðurstaða vinnu sem mest hefur farið fram innan ráðuneyta undir forustu ráðherra og þeirra vinna byggir að sjálfsögðu á stjórnarsáttmálanum. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt að leggja fjárlögin fram og nú liggur fyrir nokkurra vikna vinna þingsins við að fara yfir fjárlögin og draga fram veikleika og styrkleika. Við þá vinnu finnst mér brýnt að skoða sérstaklega heildaráhrif fjárlaganna, þar á meðal áhrif á íbúa eftir landshlutum. Ég vil taka það sérstaklega fram að margt af því sem komið hefur fram í umræðu um fjárlögin síðustu daga og talið hefur bitna á landsbyggðinni sérstaklega er ekki þannig þegar nánar er skoðað. Flest hagsmunamál í fjárlögunum eru sameiginleg landsbyggð og höfuðborgarsvæði.