143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi ferðasjóðinn. Upphæðin nam 70 milljónum, verður 85 milljónir, sem jafngildir hækkun um liðlega 21%. Þetta er mjög ánægjuleg hækkun. Þetta skiptir máli fyrir íþróttafélögin, einkum og sér í lagi úti á landi.

Hvað varðar aðgengi til fjarnáms þá er ekki um að ræða neina lækkun á þeim fjárframlögum umfram aðhaldskröfuna sem gerð hefur verið. Það má alveg ljóst vera að mikil sóknarfæri eru fyrir okkur á næstu árum að auka þessa þjónustu. Sérstaklega skiptir það máli fyrir hinar dreifðu byggðir að geta notið þessa sem best.

Ég vona að ég sé að grípa þau atriði sem hv. þingmaður hafði … (LínS: … jöfnun námskostnaðar.) — jöfnun námskostnaðar, það var það sem mig vantaði, virðulegi forseti. Þar var engin breyting á í sjálfu sér nema bara aðhaldskrafan, ef ég man rétt. Það kann að vera að það sé svolítið erfitt að lesa þetta út úr fjárlagafrumvarpinu sjálfu en ég held að það sé annars vegar hagræðingarkrafan og hins vegar verðlagsbæturnar sem koma á móti. Það þýðir lækkun upp á 8,8 milljónir sem aðhaldskrafan var, svo koma verðbæturnar þar á móti. Ég held að það ætti að svara fyrirspurninni.