143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um menntamálin í fjárlagafrumvarpinu. Ég verð að segja að mér finnst það frekar sorglegt, allt það sem hér hefur verið lagt fram. Það er svolítið sjokk að sjá hversu hart er gengið fram í niðurskurði og ekki síst í menntamálum. Ég hef alltaf verið þeirrar trúar og maður hefur hlustað á þetta í gegnum tíðina hjá stjórnmálamönnum, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar, að ef það er kreppa verja menn menntakerfið og heilbrigðiskerfið fram í rauðan dauðann.

Ég hef líka tekið eftir því á undanförnum árum að það er alltaf niðurskurður til menntamála, nánast endalaust verið að skera niður. Maður veltir því fyrir sér hvernig sé fyrir fólk að vinna í svona starfsumhverfi þar sem er endalaust skorið niður. Það þarf ekki annað en að lesa fjölmiðla undanfarna daga til að sjá að það eru nánast allir í sjokki.

Mig langar að lesa smáblogg sem ég las á netinu, það er frá því daginn fyrir kosningar, með leyfi forseta:

„Auðlind skapar auðlind. Við skulum muna að verðmæti auðlinda okkar byggir fyrst og síðast á þekkingu okkar og vísindum. Með aukinni þekkingu finnum við nýjar og betri leiðir til að nýta auðlindirnar og þess vegna skiptir öllu máli á næstu árum og áratugum hvernig okkur gengur að efla vísindi og menntun í landinu. Jafnframt er það svo að verðmæti auðlinda okkar munu vaxa jafnt og þétt vegna þeirrar starfsemi sem tengist auðlindanýtingunni. Dæmi um þetta er til dæmis allur sá iðnaður sem sprottið hefur upp í kringum sjávarútveginn, fjöldi iðnfyrirtækja hefur náð að þróa vörur á innanlandsmarkaði sem hægt er að flytja út á alþjóðlegan markað. Það er því mikilvægt að horfa til þess að auðlindir geta skapað samkeppnisforskot fyrir margs konar afleiddan iðnað á alþjóðlegum mörkuðum. Sérþekking sem fæst á heimamarkaði verður að verðmætri útflutningsvöru ef rétt er haldið á málum.

Menntun er grundvöllur nýtingar. Mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar er því í raun menntakerfið okkar. Með því að fjárfesta í menntun og vísindum mun okkur auðnast að auka verðmæti auðlinda okkar jafnt og þétt og þannig tryggja þjóðinni lífskjör sambærileg við það sem best þekkist. Því miður hefur ekki verið mikið rætt um menntamál í þessari kosningabaráttu, önnur mál hafa tekið allt sviðið. En það er sama hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn, menntamál þurfa að vera í forgrunni stjórnarstefnunnar. Menntamál eru nefnilega atvinnumál og menntamál snúast um lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Við eigum því að hætta að tala um hvað við eyðum í menntun þjóðarinnar og tala heldur um fjárfestingu okkar í menntun.“

Ég er alveg fullkomlega sammála þessu bloggi. Þetta blogg skrifaði hæstv. menntamálaráðherra daginn fyrir kosningar. Maður sem skrifar svona og verður síðan menntamálaráðherra hlýtur að verja menntakerfið með öllu sem hann getur — öllu — og skera ekki niður þar sem komið er inn að beini.

Þetta er sorglegt. Ég skil samt vel þá stöðu sem ríkisstjórnin er í. Þetta er ekkert auðvelt. Ég öfunda ekki hæstv. menntamálaráðherra að þurfa að taka á þessum málum. En við eigum, það er skylda okkar, að verja menntakerfið algjörlega. Ég held að það sé kominn tími til þess að fara að stoppa niðurskurð þar þótt illa ári og hallarekstur sé mikill.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er hann ekki sammála mér í því?