143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja að taka undir þau ummæli sem hv. þingmaður vitnaði í, þ.e. mín eigin. Skoðun mín hefur í engu breyst hvað þetta varðar. Ég er jafn sannfærður um það sem hv. þingmaður vitnaði í eins og daginn sem ég skrifaði þetta. Meðal annars er það þess vegna sem ég lagði mikla vinnu í að tryggja t.d. að ekki yrði haldið áfram að skera niður hjá framhaldsskólum, í rekstri þeirra. Þetta er fyrsta árið frá því 2007 þar sem reksturinn er ekki skorinn niður. Enn og aftur, vitanlega breytist framlagið til einstakra skóla vegna nemendaþróunar, fjárfestinga og annars slíks, en þetta er staðreyndin. Það er verið að stöðva þessa þróun og segja hingað og ekki lengra, við skerum ekki meira niður í framhaldsskólunum.

Hvað varðar háskólana er alveg rétt að sett er niðurskurðarkrafa á þá. Þeir geta reyndar núna að fullu innheimt kostnað við innritun og þurfa þá náttúrlega ekki að nota fjármuni ríkisins til þeirra hluta eins og áður var. Þannig að mér telst svo til hvað varðar Háskóla Íslands að niðurskurðarkrafan á hann verði í kringum 0,5% í staðinn fyrir 1,5% sem annars hefði verið.

Aðalatriðið í því sem ég hef lagt upp með er að verja kjarnann, að verja starfsemina, neita mér um ýmislegt þar sem er spennandi og skemmtilegt en nýtt, geyma mér það og vonast til að ráðast í það á næstu árum þegar hagur ríkissjóðs vænkast. Það er mín stefna í þessu, að ganga ekki lengra í niðurskurðinum.

Ég bendi á, virðulegi forseti, að dæmi eru um það á nýliðnum árum að þegar litið var á krónutöluna í niðurskurði í rekstri framhaldsskólanna og síðan krónutöluna til nýrra verkefna á sama ári í sömu fjárlögum var það svipuð tala. Með öðrum orðum, það er verið að grafa innan úr kerfinu og bæta síðan utan á það. Það er ég ekki að gera. Ég er að reyna að verja kjarnann, reyna að verja það sem mestu máli skiptir, neita mér um hið nýja. Það er ekki skemmtilegt, virðulegi forseti. Það er vel hægt að lesa svona greinar eins og hér var gert. Ég kveinka mér (Forseti hringir.) ekki undan því af því ég er jafn sammála þeim orðum og ég var þegar ég ritaði þau.