143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég fór á áhugavert pallborð í kosningabaráttunni þar sem stjórn Vísindafélags Íslendinga og Félags prófessora við opinbera háskóla spurði stjórnmálaflokkana út í meðal annars þessa nýju skýrslu sem hún lét gera og kom út í desember 2012 um nýja sýn – breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu. Þar kemur svo réttilega fram, með leyfi forseta:

„Mannauður er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga. Aukin verðmætasköpun til framtíðar mun byggjast á því að þessi auðlind sé virkjuð með markvissum hætti.“

Þá er spurningin: Er heildstæð sýn á bak við þennan niðurskurð sem á að fara í í menntakerfinu þar sem vegnir eru og metnir kostir og gallar og horft til framtíðar í þessum málum þannig að það sé ekki verið að pissa í skóinn sinn, ekki verið að spara sér eitthvað núna sem skaðar meira til framtíðar. Er sú sýn aðgengileg fyrir almenning þannig að við getum þá skilið hvers vegna verið er að skera niður hér en ekki þar og hvernig þetta spilar allt saman til þess að bæta menntun Íslendinga, bæta mannauð á Íslandi sem skapar okkur tækifæri, verðmæti og velmegun?

Svo langar mig, fyrst ég hef þennan tíma, að benda á verkefnið code.org sem er verkefni vestan hafs um að forritun sé kennd á öllum grunnskólastigum. Verkefnið er stutt af stofnendum stærstu tæknifyrirtækja heims, Bill Gates, Mark Zuckerberg o.fl. Er þetta ekki eitthvað sem hægt er að setja svolítið í forgrunn? Það er nákvæmlega þarna sem verðmætasköpun er hvað gríðarlegust og ég held að stysta háskólanám á Ísland sé í tölvunarfræði. Menn eru gripnir af fyrsta eða öðru ári beint inn í atvinnulífið að skapa verðmæti þannig að þetta er kannski eitthvað til að hugsa um.

Ég nota svo hina ræðuna í önnur atriði sem ég á eftir.