143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að kalla eftir upplýsingum um hvar hún sé aðgengileg. Ég mundi endilega vilja sjá þessa framtíðarsýn á blaði, sjá hana einhvers staðar — eða í tölvunni náttúrlega, ef hún væri á tölvutæku formi væri það enn þá betra og ef það væri gert gagnvirkt væri það enn þá betra, en að fá að sjá þessa framtíðarsýn og hvernig þessir hlutir eru vegnir og metnir. Ég held að það skipti fólk gríðarlegu máli að sjá þá. Ef fólk sér það skilur það hvað er í gangi, hvað er verið að fara, hverju að fórna og hvað við fáum í staðinn.

Ein hugmynd inn í þetta sem gæti sparað okkur gríðarlega mikið er þessi bylting sem á sér núna stað í menntun í heiminum í dag, svokallað MOOC, þ.e. „Massive Open Online Courses“, sem er það að fólk getur skráð sig hjá meðal annars stærstu háskólum heims, MIT, Harvard o.fl., skráð sig í námskeið á netinu og tekið þau á netinu. Háskólar úti um allan heim eru byrjaðir að veita einingar fyrir þá sem klára slík námskeið. Þarna getur fólk setið heima hjá sér eða í vinnunni, eins og á malbikinu hjá mér, og aflað sér menntunar sem er síðan verðmætaskapandi í framtíðinni.

Það væri áhugavert að heyra hvort þetta rúmast innan þessarar stefnu.