143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er fróðleg og skemmtileg umræða. Ég er að velta því fyrir mér hvar ég vegi í meðaltalinu, hafandi tekið meistaragráðu á sextugsaldri á sínum tíma.

Ég ætla að fagna því sem hæstv. ráðherra hefur vakið athygli á og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að hann ætlar að láta vinna hvítbók þar sem fram kemur stefna ráðherra í ýmsum málaflokkum. Ég ætla að hvetja hann til þess í framhaldinu af umræðunni áðan að taka þar inn skapandi greinar. Ég kalla eftir því hvaða stefnu hæstv. ráðherra hefur í þeim greinum vegna þess að það skiptir miklu máli.

Mig langar að nefna nokkur atriði í viðbót við það sem kom fyrr í umræðunni. Í fyrsta lagi hafa verið í gangi viðamikil vinnumarkaðsúrræði fyrir ungt fólk og við erum nýbúin að fá staðfestingu á því í skýrslu að þau hafi virkað mjög vel. Hæstv. ráðherra nefndi Nám er vinnandi vegur og benti á að þeim hefði fækkað mjög sem þyrftu á því að halda. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann telur hafa valdið. Er búið að metta markaðinn, er búið að leysa þessi mál? Er ástandið orðið svona miklu betra að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessu eða er fólk ekki lengur að nýta sér þetta?

Mig langar líka að spyrja um tvö verkefni sem eru tilraunaverkefni sem sett voru af stað í Norðvesturkjördæmi og í Breiðholtinu til að auka menntastig í landinu. Staðreyndin er sú að það er óvenjuhátt hlutfall þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi á vinnumarkaði á Íslandi. Þess vegna tóku aðilar vinnumarkaðarins sig saman um að setja í gang verkefni um það hvernig hægt væri að ná til fólks og endurmennta það og auka menntastigið á vinnumarkaði. Hver er staðan á því verkefni og hvernig sér ráðherrann fyrir sér framhaldið á því?

Í þriðja lagi erum við búin að nefna það að í stefnumótun um æskulýðsfélög skipti mjög miklu máli að efla þriðja geirann. Mér heyrðist hæstv. ráðherra nefna að það yrði að mæta afgangi af því að það væri ekki grunnþjónusta. Mig langar að heyra aðeins betur um það.

Varðandi háskólana er búið að ræða örlítið um Háskólann á Hólum. Þegar skilið var við þetta í síðustu fjárlögum voru settar inn aukafjárveitingar bæði á Bifröst og Hóla og síðan átti að meta stöðu þessara skóla. Það hefur að vísu verið gert oft áður. Ég hef miklar áhyggjur af þessum skólum og ég held að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra, varðandi háskóla, að telja fjölda heldur eigi eftir sem áður að tala um gæði, eftirspurn og kostnað og það eigi að reyna að koma þessum skólum í rétt horf.

Er til dæmis tekið á fortíðarvandanum sem kom upp þegar skólarnir voru færðir — þá er ég að tala um Hóla og Hvanneyri — frá atvinnuvegaráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis? Þá voru skuldirnar allar skildar eftir. Árlega er talað um að þessir skólar séu illa reknir en þeir eru í raunveruleikanum (Forseti hringir.) með fortíðarvanda sem aldrei hefur verið hreinsaður upp.

Í síðasta lagi: Hvar sér þess stað í frumvarpi til fjárlaga að (Forseti hringir.) efla eigi iðn- og tæknigreinar?