143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að enn þá er mikið starf óunnið hjá okkur varðandi iðnnámið. Fjöldi nemenda, þ.e. hlutfall þess árgangs sem fer í iðnnám er enn of lágt. Ég held að það sé augljóst að við þurfum að gera betur þar. Sumt af því snýr að peningum og hversu mikla fjármuni við getum sett í málið, en það eru líka spurningar hér um skipulagsatriði.

Það mun koma á næstunni fram skýrsla frá OECD sem var unnin í tíð fyrri ráðherra fyrri ríkisstjórnar sem m.a. tekur á ýmsum skipulagsmálum. Þar er tækifæri fyrir okkur til að bæta þessa stöðu og auðvelda nemum þetta nám. Ég held að það skipti líka miklu hvernig við stöndum að námsráðgjöfinni þegar krakkar fara úr grunnskólunum og í framhaldsskólann. Eins líka hvað tekur við þegar framhaldsskólastiginu er lokið hvað varðar iðnnámið, hvaða möguleikar standa þá opnir fyrir nemendur. Allt eru þetta mikilvæg atriði sem rétt er að horfa til.

Ég verð að segja eins og er varðandi hinar skapandi greinar sem hv. þingmaður nefndi og tengingu þeirra við þá hvítbók sem ég er nú að láta skrifa að ég held ég muni kannski ekki breyta akkúrat vinnutilhögun þar, en það er ágæt hugmynd að fara vel í gegnum þá stefnumótun sem fyrir liggur og þau gögn sem fyrir liggja. Þá væri kominn fyrir næstu fjögur árin einhvers konar pappír sem tæki þessa hluti saman af minni hálfu, ég held að það sé alveg ógalin hugmynd og þakka hv. þingmanni þá ábendingu.

Ég hef lagt áherslu á það í þessari umræðu að þó að við höfum þurft að skera niður nokkuð hvað þessa þætti varðar er auðvitað samt sem áður heilmikil starfsemi áfram í gangi. Þó að sjóðirnir sem eru tiltölulega nýlegir verði ekki til staðar núna á næsta ári þá heldur t.d. áfram starfsemi miðstöðvanna. (Forseti hringir.) Það er síðan einlægur vilji minn að þegar úr rætist hjá okkur munum við geta látið þetta vaxa og dafna.