143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég fengi bara tvö tækifæri í þessari umræðu og talaði því sérstaklega hratt í þeim en sem betur fer fékk ég önnur tvö þannig að ég get þá fylgt eftir þeim spurningum sem ég var með til hæstv. ráðherra hér áðan.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna það — því að ég átta mig ekki alveg á því hvernig hæstv. ráðherra hyggst halda áfram stefnumótun um framhaldsskólann. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að rekstri framhaldsskólanna sem slíkra er hlíft að einhverju leyti enda búið að skera þar verulega niður. Ég held raunar að allir hv. þingmenn sem tóku til máls í þessari sömu umræðu í fyrra hafi verið sammála um að þar mætti ekki ganga lengra þannig að ég tek undir með hæstv. ráðherra með það.

Rekstur framhaldsskóla kann hins vegar að verða fyrir áhrifum af þeirri skerðingu sem farið er í hvað varðar Nám er vinnandi vegur. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra þegar hann sagði hér áðan að atvinnustig í landinu og aðstæður hafa gert að verkum að nemendum hefur fækkað í átakinu Nám er vinnandi vegur, og mér finnst það bara jákvætt ef við horfum á það þannig. En aðrir liðir falla burtu og ég nefni þá sérstaklega þróunarsjóðinn til að efla starfstengt nám upp á 300 milljónir, og ég nefni svo aftur þessa liði, námskrárgerðina og framkvæmd nýrrar skólastefnu. Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér að þeim breytingum sem hann hefur rætt hér í löngu máli, styttingu framhaldsskólans, verði hrundið í framkvæmd ef ekkert fé er til þróunar í skólastarfi?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann ræðir hér um styttingu framhaldsskólans, hvernig hann sjái fyrir sér að það fari fram ef ekki er ætlunin að fylgja þeirri hugmyndafræði að gefa skólunum faglegt frelsi til að þróa námsbrautir sem geta verið mislangar. Hugsunin á bak við það var sú, eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um, að mæta þörfum ólíkra nemenda. Hæstv. ráðherra nefndi hér skýrslu OECD. Eitt af því sem þar kemur fram er að auka þarf fjölbreytni í námsframboði. Og ef við erum sammála um það að til þess að stytta námstíma til stúdentsprófs séum við í raun að tala um að draga úr brottfalli þá hlýtur sú fjölbreytni að vera lykilatriði. Hvernig eigum við að gera það ef búið er að þurrka út þá fjármuni sem voru ætlaðir í það? Eða á hæstv. ráðherra við eitthvað annað þegar hann ræðir um styttingu náms til stúdentsprófs? Er hæstv. ráðherra að tala um að setja hámark á einingafjölda til að taka til stúdentsprófs? Það væri mjög áhugavert því að þá fyrst, ef við vitum hvað átt er við með því, er hægt að taka afstöðu til þessara tillagna. Ef ætlunin er að fresta þessu, eins og hæstv. ráðherra kom hér að áðan, þá spyr ég: Er þá hugmyndum hans ekki frestað í senn?

Mig langar líka aðeins að spyrja út í háskólamálin því að hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann teldi mikilvægt að fara betur með þá fjármuni sem eru til staðar í kerfinu. En svo ég vitni aftur í OECD eru framlög hér til háskólastigsins með því lægsta sem þar gerist. Við erum þar langt á eftir Norðurlöndum ef við miðum við framlög per nemanda (Forseti hringir.) og við erum komin þar undir meðaltal og vorum raunar komin fyrir kreppu. Hvernig nákvæmlega (Forseti hringir.) sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé að fara betur með þá fjármuni?