143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom mjög skýrt fram í máli mínu hefur niðurskurður á þeim liðum sem heyra undir Nám er vinnandi vegur væntanlega áhrif á framhaldsskólana. Það er það sem ég var að benda á þó að hæstv. ráðherra kysi að túlka það öðruvísi. Þá benti ég til að mynda ekki á þann hluta verkefnisins sem snýr að fjölda nemenda í verkefni heldur nefndi ég þróunarsjóð til að efla starfstengt nám og námskrárgerðina og framkvæmd nýrrar skólastefnu þar sem fjármunirnir eru sem framhaldsskólarnir hafa haft úr að spila í þróunarstarfi sínu. Þó að rekstri framhaldsskólanna sé hlíft getur hæstv. ráðherra ekki neitað því að þessar miklu niðurfellingar á fjármunum sem allar snúast um þróunarstarf í framhaldsskólum, sem er stór hluti skólastarfs, hljóta að hafa einhver áhrif á skólastarf.

Ég mun áfram bíða spennt eftir hugmyndum hæstv. ráðherra því ég spurði hér nokkuð skýrra spurninga um stefnu hans í málefnum framhaldsskólans, þ.e. hvort það væri rétt skilið hjá mér að til þess að stytta nám til stúdentsprófs teldi hæstv. ráðherra mikilvægt að sporna við brottfalli og hvort hann væri sammála þeirri greiningu OECD sem hann vitnaði sjálfur til áðan um það að fjölbreytt námsframboð væri einn af þeim þáttum sem skipti máli til að koma til móts við þarfir einstakra nemenda til að sporna gegn brottfalli og þar með stytta námstímann til stúdentsprófs eða hvort hæstv. ráðherra hefði eitthvað annað í huga. Ég bíð enn eftir svörum við því.

Hvað varðar háskólamálin þurfum við líklega, eins og hæstv. ráðherra segir, talsvert lengri tíma til að fara yfir þessi mál. Ég held einmitt að það þurfi að velta fyrir sér hvernig við getum aukið framlög til nemenda á háskólastigi. Ég tel að við höfum í raun og veru fengið mikið fyrir lítið. Ég er sammála hæstv. ráðherra að við eigum ekkert að vera feimin við að horfa á samstarf og sameiningar háskóla í þeim efnum en við hljótum að horfa til þess til að efla faglega hluta starfsins. Ég veit í sjálfu sér ekki hversu mikilli hagræðingu sameiningar mundu skila á þessum tímapunkti. Mér er það til efs. Ég tel hins vegar að samstarf og sameiningar (Forseti hringir.) geti skilað auknum faglegum gæðum. Það er (Forseti hringir.) auðvitað stórmál í allri háskólapólitík.