143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Skýringin felst sennilega í því að þegar horft er á framhaldsskólaliðinn í fjárlögunum og síðan tekin þau framlög sem voru til lækkunar, m.a. vegna þess sem við höfum rætt hér, Nám er vinnandi vegur, og eins sú ákvörðun að fresta framkvæmdum við Fjölbrautaskóla Suðurlands, kemur sú tala út en þegar horft er til reksturs framhaldsskólanna blasir við önnur mynd. Þá er ekki verið að lækka framlagið til rekstursins sem er lykilatriði og enn og aftur er þetta í fyrsta sinn síðan 2007 sem sú staða er uppi.

Virðulegi forseti. Ég mundi líka vilja nefna eitt af því að við vorum að ræða starfsnám sem er svo mikilvægt. Það er rétt að halda því til haga hvað varðar þróunarsjóð fyrir starfsnámið að þannig var lagt upp með hann að hann var til tveggja ára, þ.e. 300 milljónir á ári í tvö ár. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem lagt var upp með af hálfu fyrri ríkisstjórnar átti þess ekki að sjá stað í fjárlögum ársins 2014. Sú stefna lá fyrir. Það er því í engu breyting frá því sem áður var ákveðið að ekki yrðu settir fjármunir til sjóðsins á þessu ári, það er í samræmi við þá stefnu fyrri ríkisstjórnar að það yrði til tveggja ára, 300 milljónir á ári hvort ár fyrir sig, 600 milljónir samanlagt.

Ég vil segja, úr því að hv. þingmaðurinn var að tala almennt um fjárlögin, að það er rétt þegar við horfum á stöðuna sem er uppi að fagna því að við erum að leggja fram fjárlög sem eru réttu megin við núllið. Ég held að sama hvar í flokki menn standa hljóti það að vera fagnaðarefni. Menn geta síðan deilt um hvernig sú staða er komin upp eða hvað þurfti að gera til þess að hægt væri að gera svo en staðan er þessi og það er fagnaðarefni. Það er mjög alvarlegt mál fyrir okkur Íslendinga hversu háar vaxtagreiðslur hvíla á okkur og hversu viðkvæm við erum fyrir því ef vextir hækka hér á næstu árum, hvað það mundi þýða fyrir stöðu ríkissjóðs.