143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og bæta við spurningum. Sú fyrsta snýr að RÚV. Það er ljóst miðað við forsendur sem við höfum rætt að meira afgerandi útgjaldaauki getur ekki átt sér stað til einstakra málaflokka nema með afgerandi niðurskurði á öðru sviði.

Í frumvarpinu segir meðal annars að ekki sé gerð sama hagræðingarkrafa til RÚV líkt og á við um aðrar stofnanir ráðuneytisins og vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna svo sé.

Svo vil ég snúa mér að íþróttunum en ég mun seint þreytast á að benda á mikilvægi íþrótta þegar kemur að uppeldi og forvarnamálum. Því er það gleðilegt að sjá aukinn rekstrarstyrk til ÍSÍ og að bætt sé í ferðasjóð. Að lokum langar mig að koma inn á starf Íþróttasambands fatlaðra þar sem frábært starf hefur verið unnið og við munum öll eftir því augnabliki þegar Jón Margeir Sverrisson vann afrek sitt á Ólympíuleikunum í London 2012. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrirhugað sé að styrkja sérstaklega þátttöku okkar á vetrarólympíuleikum fatlaðra 2014.

Af því að ég á hér tíma ætla ég að bæta við einni spurningu. Kvikmyndagerð hefur borið á góma og ég vil fá að nota orð kvikmyndaleikstjórans Friðriks Þórs Friðrikssonar þegar hann spurði hreinlega, og beini ég spurningunni til hæstv. ráðherra, hvers vegna verið væri að skjóta mjólkurkúna.