143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vona að þessu hafi ekki verið sérstaklega beint til mín vegna þess að ég gaf 40 sekúndur síðast og vona heldur ekki að það hafi verið einhver áhyggjutónn yfir því að ég kæmi aftur og aftur. Þingmenn Samfylkingarinnar eru á sveitarstjórnarfundum akkúrat í augnablikinu þannig að ég kem hingað upp oftar en ella. Að þessu sinni er ég þó í þeim málaflokki sem heyrir undir hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem ég á sæti í.

Ég óska nýjum ráðherra innilega til hamingju bæði sem þingmanni og sem ráðherra með starfið og ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra setur öryggi almennings sem meginmarkmið.

Það er auðvitað margt að ræða sem er undir þessu ráðuneyti. Það er ástæða til þess að fagna því að það sést í frumvarpinu að átakinu sem sett var í gang til að tryggja úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna, er haldið áfram. Því ber líka að fagna að hæstv. ráðherra tryggir áfram tímabundið framlag til löggæslu 200 millj. kr., að það sé gert varanlegt og við það bætt 300 millj. kr. til að sinna löggæslumálum betur. Í því samhengi vil ég líka fagna því að hæstv. ráðherra hefur ákveðið að þverpólitísk samstaða skuli vera um hvernig eigi að vinna verkið áfram. Að vísu liggur fyrir góð skýrsla sem var þverpólitísk samstaða um sem náði til þess hver fjárveitingaþörfin væri í löggæslu til framtíðar litið.

Eitt af því sem mig langar einmitt að heyra er hvort sú nefnd þingmanna sem hæstv. ráðherra hyggst skipa fái einhver fyrirmæli um hvert verkefnið eigi að vera, m.a. hvort sinna eigi sérstaklega landsbyggðinni sem mér finnst að mörgu leyti eðlilegt miðað við það hvernig skorið hefur verið niður þar á undanförnum árum.

Varðandi annað mál sem mig langar eiginlega fyrst og fremst að fjalla um, mál sem innanríkisráðuneytið hefur unnið mikið með en heyrir að vísu formlega undir forsætisráðuneytið en stýrinetið hefur verið hjá innanríkisráðuneytinu, þ.e. sóknaráætlun landshluta. Þetta víðtæka samstarfsverkefni, þar sem öll sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök hafa unnið gríðarlega mikið að því að forgangsraða verkefnum í sínum landshluta, hefur sem sagt verið í gangi og þróast á síðastliðnum árum. Menningarsamningarnir voru felldir þarna undir. Hugmyndin á bak við þetta er auðvitað aukið lýðræði, aukið nærlýðræði, aukinn réttur sveitarfélaga til að taka ákvarðanir í sínum málum og forgangsraða. Þarna eru meðal annars undir almenningssamgöngur hjá mörgum af þessum sveitarfélögum. Ég hef áhyggjur af því að framlög til þessa hafa verið lækkuð gríðarlega og verkefnið nánast tekið út af fjárlögum, þ.e. ekki bætt neitt við eins og gert var ráð fyrir.

Mig langar að heyra hver afstaða hæstv. ráðherra er til vinnunnar varðandi sóknaráætlun landshluta, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður líka, og hvort hugmyndin sé að henda þessari vinnu eða hvernig menn sjá fyrir sér að þetta muni þróast á næstu (Forseti hringir.) vikum og mánuðum.