143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir mjög margt sem kom fram í máli hans. Varðandi það sem nefnt er um þá þverpólitísku nefnd sem verður skipuð til þess að halda utan um átakið, sem hv. þingmaður fór hárrétt með hvernig stendur til að halda á, þá fær sú nefnd ekki önnur tilmæli en þau að vinna í samræmi við þá áætlun sem gerð var hjá þeirri nefnd sem skilaði af sér í mars síðastliðnum. Þar var að vísu gert ráð fyrir aðeins hærri upphæðum en markmiðið er að vinna í samræmi við það. Þar var gert ráð fyrir fimm ára átaki sem við sjáum fyrir okkur að verði unnið eftir.

Forgangsröðunin er hins vegar alveg skýr. Hún hefur komið fram í máli mínu áður og verður skýr í erindisbréfi þessa hóps. Það stendur til að byrja á því að vinna að fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni. Það er fyrsta verkefnið sem verður sett á laggirnar og er að okkar mati það mikilvægasta og brýnasta nákvæmlega núna. Það er því fyrsta skrefið.

Varðandi stýrinetið og það sem nefnt er um sóknaráætlun landshluta þá tek ég undir það með hv. þingmanni að afar margt þar var vel gert. Það er mjög mikilvægt að mínu mati, fyrir hönd sveitarfélaganna sérstaklega, að sú vinna haldi áfram og ekki verði einhver þáttaskil einungis vegna þess eða vegna þess að skipt var um ríkisstjórn. Ég get upplýst þingið um það betur síðar. Það eru hins vegar í skoðun ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi þessa verkefnis, að betur verði tekið utan um það sem hv. þingmaður nefndi um einstaka verkefni sem fellur þar undir. Það gæti því haft í för með sér ákveðna breytingu á fyrirkomulagi verkefnisins. Það er ein af ástæðunum fyrir því að þess sér ekki eins skýran stað og ætla mætti í fjárlögum, þ.e. sá þáttur er lýtur að málefnum innanríkisráðuneytisins. Ég veit ekki betur en að það verði kynnt í næstu eða þarnæstu viku og ég skal með ánægju upplýsa þingmanninn um það þegar það liggur betur fyrir.