143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu varðandi fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni og að fylgt verði þeirri skýrslu sem samkomulag náðist um. Ég held að það sé mjög mikilvægt í allri svona vinnu að þegar menn setja af stað viðamikla hópa til þess að þróa og koma með tillögur þá sé þeim fylgt þó að það verði ráðherraskipti og reynt að vinna út frá þeim. Ég fagna líka þeirri afstöðu að vinnu verði haldið áfram við sóknaráætlanir þó að ég vilji hafa allan fyrirvara á því. Við verðum að gæta að því að hugmyndafræðinni á bak við það að færa vald heim í hérað verði fylgt. Þess vegna er mikilvægt að sjá með hvaða hætti það þróast.

Mig langar aðeins til að bæta við spurningum. Þær eru tvær, annars vegar: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér þjónustuna við smærri vegi? Það kemur þarna inn í fjárlögin stórt verkefni á Húsavík og það verður til þess að skorið er niður í smærri vegamálum. Við könnumst aðeins við þetta. Áður var það þannig, að vísu vegna þensluáhrifa, að menn drógu úr vegaframkvæmdum á Vestfjörðum vegna stórframkvæmda á Austurlandi. Þetta má náttúrlega ekki gerast þannig. Mig langar aðeins að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessa verkefnis.