143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem nefnt var fyrst um lögreglumálin og það sem lýtur að eflingu þar vil ég bæta því við vegna spurninga hv. þingmanns að því miður kemur inn í þetta eins og hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég — og það verður þá að leysa það — ákveðin fjárhagsstaða hjá einstökum lögregluembættum um landið sem er þannig að ætla má að eitthvað af þessu fjármagni þurfi að nýta til að tryggja að rekstur þeirra embætta gangi betur upp.

Varðandi sóknaráætlunina ítreka ég bara það sem ég sagði áðan og tek undir það með hv. þingmanni hversu mikilvægt er að nýta það sem var gert í því verkefni, sem er að færa valdið meira heim í hérað.

Varðandi það sem nefnt er um vegamálin þá er það rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að gert er ráð fyrir lækkun á framlagi til framkvæmda af hálfu Vegagerðarinnar. Viðmiðið hefur verið — þrátt fyrir að það sé ekki búið að taka endanlegar ákvarðanir nákvæmlega um það — að standa við samgönguáætlun og tryggja að hún haldi. Það gæti því miður komið niður á smærri verkefnum með einhverjum hætti. Við munum fara yfir það núna og samgönguráð er í þeirri vinnu. Ég get því miður ekki á þessu stigi tjáð mig um einstaka verkefni. Við munum reyna að gæta þess að það komi sem minnst niður á smærri verkefnum og að við náum eins og ég segi að halda samgönguáætlun. Svo er það auðvitað eins og hv. þingmaður þekkir og er því miður staðan að viðhald á vegum víða um land er ekki í samræmi við það sem við vildum helst sjá þannig að við munum reyna að forgangsraða því svo að það komi ekki niður á öðru. Ég get ekki á þessum tímapunkti, áður en samgönguráðherra hefur fengið tækifæri til þess að fara yfir það, tjáð mig nákvæmlega um einstaka verkefni sem koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi.