143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að vekja athygli þingmanna á því að í fjárlagafrumvarpinu er farið aðeins yfir tilraunaverkefni sem hófst 2010 í kynjaðri fjárlagagerð og snýr að Héðinsfjarðargöngum og áhrifum þeirra á íbúa í sveitarfélaginu. Þar eru afar áhugaverðar niðurstöður sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

En hér hafa farið fram fínar umræður um þennan málaflokk sem innanríkisráðherra hefur með höndum. Hann er afar viðamikill og mér finnst ánægjulegt að sjá hversu vel hæstv. ráðherra hefur staðið vaktina fyrir sinn málaflokk og margt er svo sem komið fram í hennar svörum nú þegar sem ég hafði velt fyrir mér. Auðvitað gleðst maður yfir þessum 500 milljónum sem settar verða til þess að efla löggæsluna, það er í anda þess sem var rætt í vor þegar við ræddum skýrslu um löggæsluna og hvaða úrbóta væri þar þörf. Það er líka ánægjulegt að heyra af fjölgun lögreglumanna, að áherslan sé fyrst á landsbyggðina þar sem við vitum að þeir eru oft einir á ferð.

Mér finnst líka gott að sjá þessar 220 milljónir sem settar eru í aukaframlag til málefnis hælisleitenda og þessarar opinberu réttaraðstoðar og tek undir framlag, þótt það sé tímabundið, til að fylgja eftir tillögum samráðshópsins um úrræði fyrir þolendur kynferðisafbrota.

Eins og ráðherra fór yfir á að draga úr fjárveitingum vegna almennra framkvæmda Vegagerðarinnar. Þetta er stór upphæð, 750 millj. kr., og eins og hún kom hér inn á veit ég að það eru meira að segja einstök verkefni í mínu kjördæmi.

Ég vil aðeins velta upp hérna út af mörkuðu tekjunum að hér er rúmur milljarður sem á að færast inn á tekjuhlið ríkissjóðs. Er það stefna núverandi ríkisstjórnar að skerða framkvæmdafé eða þessar mörkuðu tekjur til Vegagerðarinnar á næstu árum til að greiða niður það sem hér er kallað fyrir fram veittar markaðar tekjur? Það hefur ekki verið undanfarin ár þannig að mig langar að vita hvort það er það sem stefnt er að. Sá mikli niðurskurður sem er í almennri vegagerð er áhyggjuefni, það er búið að skera niður undanfarin ár þannig að ansi margar framkvæmdir eru undir. Þó að ráðherra hafi talað um að hún gæti ekki upplýst akkúrat núna væri ágætt að fá að vita á næstu dögum hvaða verkefni eru þar undir, þ.e. sem ekki verða framkvæmd vegna skerðingar.