143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða málið betur varðandi göngubrú yfir Markarfljót vegna þess að auðvitað höfðu menn uppi ákveðnar hugmyndir í þinginu á síðasta kjörtímabili þegar það mál kom til umfjöllunar. Ég man ekki nákvæmlega hverjar kostnaðartölurnar voru en það kom fram mjög skýr vilji í þinginu, hérna var samþykkt þingsályktun sem mjög ríflegur meiri hluti þingmanna var á. Ég held að menn hljóti að geta sniðið stakkinn svolítið eftir vexti í þessum efnum. Það hljóta að vera til ótal útfærslur af svona göngubrúm. Þær þurfa ekki að kosta hundruð milljóna eða miklu meira en einhverja nokkra tugi.

Þarna er dæmi um verkefni sem getur skapað störf, skapað tækifæri, búið til nýjar gönguleiðir, nýjar flóttaleiðir og á ekki að kosta of mikinn pening. Ég held að það væru mikil vonbrigði úr því sem komið er ef menn mundu út frá einhverjum fyrir fram gefnum forsendum, sem ég þekki reyndar ekki alveg til hlítar, ákveða að ótækt væri að ráðast í þetta verkefni. Það er mikilvægt og ég veit til þess að sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi eystra horfa mjög miklum vonaraugum til þess að þetta geti orðið, einnig rekstraraðilar í ferðaþjónustu í Fljótshlíðinni og fyrirtæki sem bjóða upp á ýmiss konar afþreyingu á svæðinu.