143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þessi gríðarstóri og mikli málaflokkur ansi seint á deginum en samt sem áður afskaplega mikilvægt að við stöldrum við hann. Hér hefur verið fjallað um nokkrar hliðar málaflokksins en mig langar til að drepa á önnur atriði en þau sem hafa þegar verið til umræðu.

Hæstv. ráðherra hefur verið talsmaður jöfnuðar í pólitískri umræðu og ekki síst jafnréttis kynjanna og hefur látið til sín taka í þeirri umræðu allt frá því að ég sá til hennar fyrst í pólitík. Það er mikilvægt að eiga liðsmenn í þeim efnum og liðskonur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt: Annars vegar um þá stöðu að horfið hefur verið frá lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf í áföngum, sem ég held að við hæstv. ráðherra þurfum ekki að reifa að er gríðarlega mikilvægt kynjajafnréttismál. Þarna er um að ræða afar langa vegferð árum saman og lýtur að jafnstöðu kvenna á vinnumarkaði. Það veldur mér mjög miklum vonbrigðum hvernig þessum málaflokki er fyrir komið í frumvarpinu og mundi gjarnan vilja heyra hæstv. ráðherra reifa afstöðu sína til nákvæmlega þessa máls.

Sú sem hér stendur hefur nýlega mælt fyrir tillögu, gerði það á sumarþingi, um að leikskólinn taki við þegar að afloknu fæðingarorlofi til að brúa þetta bil ef svo má að orði komast. Það bil birtist nú í dálítið nýju ljósi þegar áform ríkisstjórnarinnar eru með öðru móti en var í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um kynjagleraugun á skattkerfisbreytingarnar. Hér er um að ræða tilteknar breytingar sem er lækkun á tekjuskatti um 0,8% á miðþrepinu en engin breyting á lægsta þrepi og áform hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þá veru að fækka skattþrepum niður í eitt. Það kom fram í upphaflegu umræðunni um fjárlagafrumvarpið í gær að til stæði að hverfa frá þrepaskattsskiptingu skattkerfisins. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra og tel raunar að fjárlaganefndin þurfi að taka til sérstakrar skoðunar áhrif skattkerfisbreytinganna á mismunandi fjölskyldugerðir og ekki síst á stöðu kvenna í samfélaginu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún og hennar embætti hafi komið að þessari hlið fjárlagagerðarinnar, þ.e. kynjajafnréttisvinklinum á skattkerfisbreytingunni.