143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég sá í morgun skiptingu á fjárlögunum á milli ráðuneyta og manni fannst alveg nóg um hvað velferðarráðuneytið gnæfði yfir hin ráðuneytin. Við höfum svo sem fengið ábendingar frá fjármálaráðuneytinu í gegnum tíðina að þeir hefðu áhuga á því að ákveðin stofnun sem heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra og heitir Íbúðalánasjóður mundi fara á milli. Ég held að menn þurfi náttúrlega að vera tilbúnir til að skoða hvað það er sem hentar best þannig að við getum þjónað samfélaginu á sem bestan máta. Það hlýtur alltaf að vera grunnhugsun þegar kemur að fyrirkomulagi á einstökum þáttum í stjórnkerfinu.

Hvað varðar Íbúðalánasjóð og það sem hefur verið bent hér á, áhrifin af frumvarpi fjármálaráðherra um stimpilgjöldin, er þetta eitt af því sem ég tel mjög mikilvægt að Alþingi fari mjög vel yfir. Ég sagði líka í umræðu við hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að það væri mjög mikilvægt að þegar við tækjum ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag yrðum við að geta tekið ákvarðanir um það fyrirkomulag sem við teljum að sé rétt, þannig að Íbúðalánasjóður stoppi okkur ekki stöðugt. Það er alveg skýrt í lögunum hvernig uppgreiðslugjaldið er, sem hv. þingmaður spurði hér um. Það hefur hins vegar verið ágreiningur um það. Íbúðalánasjóður hefur átt jafnvel í dómsmálum vegna uppgreiðslugjalds sem er þegar á lánum. Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið rætt en það er alveg skýrt í lögum hvernig það ætti að vera.

Hvað starfsgetumatið varðar þá þekkir hv. þingmaður það ágætlega því að það er eitt af því sem ég tel að sé forgangsatriði í því að ljúka endurskoðun á almannatryggingakerfinu og hef lagt mikla áherslu á að það væri eitt af því fyrsta sem nefndin sem hann mun stýra muni skila af sér.

Það er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á NPA-verkefninu. Við þurfum að klára tilraunaverkefnið, við þurfum að fá niðurstöðurnar (Forseti hringir.) og ég legg mikla áherslu á að við nýtum þá fjármuni sem við höfum fengið í verkefnið þannig að við getum tekið næstu skref í að innleiða NPA á Íslandi.