143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu spurði hv. þm. Pétur Blöndal um jafnlaunavottunina. Það er í fullum gangi vinna sem snýr að launajafnrétti og ég er mjög spennt fyrir þeirri vinnu sem snýr að jafnlaunavottuninni. Að okkar mati í velferðarráðuneytinu þarf hins vegar að gera ákveðna lagabreytingu til að hægt sé að fara í jafnlaunavottun. Ég vænti þess að frumvarp þess efnis komi fljótlega fyrir þingið og það fái hraða og góða afgreiðslu.

Ég hef líka lagt áherslu á, þegar kemur að því að prufukeyra jafnlaunavottunina, að velferðarráðuneytið verði fyrsta ráðuneytið sem fari í gegnum hana. Það skiptir máli að velferðarráðuneytið sem fer með jafnréttismálin sé til fyrirmyndar í launakjörum okkar starfsmanna.

Síðan geta ég bara tekið undir með hv. þingmanni um starfsgetuna. Við erum mjög sammála hvað þetta varðar enda ekki að ástæðulausu sem ég óska eftir því að hann taki að sér formennsku í nefnd sem lýkur við heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat er mjög mikilvægt.

Ég hef líka lagt áherslu á og það kom fram í nýlegri skýrslu í framhaldi af fyrirspurn frá þingflokki Samfylkingarinnar um mikilvægi þess að fara í heildarendurskoðun á vinnumarkaðsmálum. Þar undir er meðal annars starfsendurhæfing og hvernig við viljum haga henni sem best. Það er mjög mikilvægt að þegar fólk veikist að við tryggjum að það njóti þess að geta fengið endurhæfingarlífeyri, geti farið í starfsendurhæfingu og við getum hjálpað því sem fyrst aftur inn á vinnumarkaðinn.

Það þarf líka að huga að því hvað gerist ef fólk fær ekki vinnu en hefur ákveðið starfsgetumat á grundvelli örorku sinnar.

Mér hafa líka fundist mjög áhugaverðar hugmyndir hv. þingmanns um barnatryggingar og ég held að það sé eitthvað sem ætti jafnvel að vera hægt að ná töluverðri samstöðu um innan þingsins því ég hef einmitt heyrt (Forseti hringir.) sambærilegar hugmyndir frá alla vega þingmönnum Samfylkingarinnar, ég get að vísu ekki alveg sagt að ég hafi heyrt (Forseti hringir.) … vinstri græna, en þetta er hins vegar eitthvað sem væri mjög mikilvægt að fara vel yfir.