143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir yfirferðina yfir þann stóra og mikilvæga málaflokk sem hér um ræðir. Það er margt jákvætt í frumvarpinu þrátt fyrir niðurskurðarkröfu í fjárlögum og ég ætla að nefna nokkur atriði sem ég er sérstaklega ánægð með.

Í fyrsta lagi er staðið við kosningaloforð framsóknarmanna um að draga til baka kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009. Þar verður skerðingarhlutfall fært niður í 38,35% úr 45% og verður það eflaust mikil kjarabót fyrir aldraða og öryrkja. Í frumvarpinu er verið að auka greiðslur í málaflokknum um 8,5 milljarða. Auðvitað má alltaf gera betur og betur þarf að huga að grunnlífeyri þegar aukið svigrúm verður. Þarna er mikilvægt að örva atvinnulífið og tryggja auknar tekjur sem síðan skila sér enn frekar til uppbyggingar á grunnstoðum samfélagsins. En með þeirri aðgerð sem framkvæmd er nú eru skref stigin í rétta átt, í átt að réttlæti, því að aldraðir og öryrkjar hafa setið eftir í kjaraumbótum undanfarin ár og skerðingarnar sem framkvæmdar voru 2009 komu mjög illa við þessa hópa. Þar sem við náum ekki að gera allt sem okkur langar til sökum fjárhagslegrar stöðu ríkissjóðs langar mig að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvenær hún telur að hægt verði að auka við grunnlífeyri lífeyrisþega.

Í öðru lagi munu útgjöld til barna aukast um tæp 17% en fjárveitingar aukast til Barnaverndarstofu til að fylgja eftir lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er varðar vistun barna í fangelsum. Samkvæmt lögunum skulu fangar undir 18 ára aldri ekki vistaðir í fangelsum heldur á heimilum á vegum barnayfirvalda. Lögfestingin hefur það í för með sér að setja verður á fót heimili fyrir börn á aldrinum 16 til 18 ára sem sæta gæsluvarðhaldi eða afplána óskilorðsbundna dóma.

Einnig er lagt fram aukafjármagn til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisafbrota og þá einkum börn en tillagan er sú að ráða tvo sérfræðinga til starfa árið 2013 og 2014 í Barnahús. Það er nefnilega mikilvægt að standa vörð um og hlúa að börnum í þjóðfélaginu okkar og bregðast sem fyrst við ef þau lenda í stöðu sem þarf að aðstoða þau í gegnum. Ef brugðist er við á réttan hátt getur það bjargað mörgum börnum frá erfiðleikum seinna á lífsleiðinni. Þegar maður hugsar um börn og erfiðleika sem geta fylgt þá hugsar maður sjálfkrafa um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þess vegna var ég mjög ánægð með svör hæstv. félagsmálaráðherra áðan þegar hún talaði um sameiningu í ákveðnum stofnunum. Ég hef fulla trú á því að sú sameining muni styrkja stofnanirnar sem verði þá til þess að biðlistar styttist.