143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og spurningar. Það væri óskaplega gaman að geta sagt það sem fyrst en eins og hv. þingmaður kom inn á þá er forsendan að við getum aukið hagvöxt hér í landinu. Á grundvelli þess er að sjálfsögðu vinna. Við sjáum líka að mjög jákvæð teikn eru á lofti, atvinnuleysi hefur minnkað mjög mikið og gert er ráð fyrir að það minnki enn meira á næsta ári.

Atvinnuþátttaka hér er enn með því hæsta sem gerist þrátt fyrir að við höfum farið í gegnum þessa erfiðleika. Þetta er þá forsendan fyrir því að við sjáum auknar tekjur hjá ríkissjóði og getum deilt þeim peningum. Ég hef oft orðað það þannig að aldrei komi sá ráðherra í velferðarráðuneytið að hann gæti ekki nýtt meiri peninga. Ég er viss um að fyrrverandi velferðarráðherra getur tekið undir það með mér að við þurfum alltaf meiri peninga þegar það snýr að velferðarkerfinu. Það eru svo mörg mikilvæg verkefni sem við erum að sinna. Þetta er framfærsla fólks sem verið er að borga, það sem fólk lifir á í gegnum almannatryggingarnar. Ég vonast til þess að við getum haldið áfram að bæta kjör lífeyrisþega og ég efast ekki um að samstaða verður um það hér á þinginu þegar að því kemur.

Hvað Greiningar- og ráðgjafarstöðina varðar þá er verið að vísa frá umtalsverðum fjölda tilvísana til stöðvarinnar. Ég hef fundið það þegar við höfum átt fundi með starfsmönnum þar og þeim sem nýta þjónustu þessara þriggja þjónustustofnana að menn sjá heilmikil tækifæri í samlegð, við það að sameina þessar stofnanir. Við erum hins vegar að byrja fýsileikakönnun á því. Það mun taka ákveðinn tíma. Ef niðurstaðan af því verður jákvæð getum við vonandi stigið þessi skref og bætt þjónustuna við þennan mikilvæga notendahóp.