143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárveitingar til velferðarmála hjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og þær bera þess merki eins og hæstv. ráðherra hefur vakið athygli á að margt jákvætt sem hefur gerst. Það er hægt að lækka framlög til umboðsmanns skuldara og líka framlög til atvinnuleysistrygginga vegna þess að atvinnuleysi hefur minnkað.

Það ber líka að fagna því að fram kemur að tryggðir verða fjármunir til að halda áfram baráttunni gegn kynferðisbrotum, einkum gegn börnum. Það er að vísu fjárlagaliður sem kemur víða við ráðuneyti, m.a. við velferðarráðuneyti og félags- og húsnæðismálaráðuneytið.

Það sem mig langar að einbeita mér að í þessari umræðu er spurningin: Nær fjárlagafrumvarpið að skila til baka skerðingum öryrkja og ellilífeyrisþega? Í aðdraganda kosninga lofuðu stjórnarflokkarnir að draga til baka allar skerðingar á kjörum örorku- og ellilífeyrisþega. Sumir gengu reyndar svo langt að lofa leiðréttingum aftur í tímann en báðir flokkarnir lofuðu leiðréttingum strax. Að vísu hefur það hugtak öðlast nýjan skilning með þeirri túlkun hv. formanns fjárlaganefndar að strax sé teygjanlegt hugtak. Látum það liggja á milli hluta.

Samfylkingin vildi bæta kjör lífeyrisþega með nýju frumvarpi um almannatryggingar og sá sem hér stendur sem þá gegndi starfi velferðarráðherra flutti frumvarp um það eftir víðtækt samráð og breiða sátt sem þó skal tekið fram að náði ekki til öryrkja.

Ný ríkisstjórn hefur þegar gert þrennt til að leiðrétta kjör örorku- og ellilífeyrisþega. Í fyrsta lagi var í sumar frítekjumark á atvinnutekjum lífeyris hækkað hjá ellilífeyrisþegum úr 40 þús. kr. í rúmlega 110 þús. kr. til jafns við öryrkja. Þetta er ótímabundið í þeim lögum en enn þá er þó verið að framlengja hjá öryrkjunum eitt ár í senn. Við vildum breyta því en það komst ekki í gegn.

Í öðru lagi fellur niður um áramótin tímabundin hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar lífeyrisþega og fer skerðingin úr 45% í 38,35%. Þetta var bráðabirgðaákvæði í lögum og átti að falla niður um áramót.

Í þriðja lagi hækka útgjöld lífeyristrygginga um 650 millj. kr. til samræmis við samkomulag ríkisstjórnarinnar, þ.e. fyrrverandi ríkisstjórnar og lífeyrissjóða frá 2010 ef ég man rétt. Stefnt er að því að frítekjumörk vegna lífeyristekna verði hækkuð til samræmis við örorku lífeyrisþega. Með því er hægt að fara í þessar 650 millj. kr. Spurningin er: Telur ráðherra sig hafa með þessu fjárlagafrumvarpi komið til móts við allar kröfur örorku- og ellilífeyrisþega varðandi skerðingar fyrri ríkisstjórnar og ef ekki, hvað er eftir?

Í öðru lagi: Hver er hækkun lífeyrisgreiðslna í fjárlögum? Mér sýnast 3% vera hér inni (Forseti hringir.) sem er neysluvísitalan. Hver er launavísitalan?

Í þriðja lagi: Hvert verður framhald vinnu á endurskoðun laga um almannatryggingar, hvaða tímamörk eru sett(Forseti hringir.) og er eitthvert fjármagn til í slíkar breytingar á árinu 2014?