143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum að ljúka 1. umr. um fjárlög ársins 2014. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið málefnaleg, bæði í gær og í dag og fyrirkomulagið að taka fyrir málefni hvers ráðherra fyrir sig er mjög gott þótt dagurinn hafi orðið langur, kannski hefðum við átt að vera með þetta á tveimur dögum. Mörgum spurningum hefur verið svarað en um leið hafa náttúrlega vaknað enn fleiri spurningar. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að við fáum tækifæri til að ræða þær, bæði í fjárlaganefnd og svo tel ég líka mjög mikilvægt að fagnefndirnar fái að koma að málum í framhaldi af svona umræðum eins og í dag þannig að þær geti haft skoðanir á lausnum í einstaka málaflokkum.

Það stendur eftir eftir þessa umræðu, og raunar áður, þegar menn fara í það að segja hver ástæðan sé fyrir því að hlutirnir eru eins og þeir eru. Við höfum margítrekað að margt af því sem gerðist á síðastliðnum fjórum árum hefur alls ekki verið í samræmi við stefnu þeirra flokka sem þá voru við stjórn ríkisins, einfaldlega vegna þess að við urðum að gjöra svo vel að bregðast við halla sem þá var yfir 200 milljarðar. Við töpuðum ríkistekjum upp á um 20%. Verðbólgan var nær 20%. Ef maður skoðar það sem hefur gerst síðan þá erum við komin í allt aðra stöðu í dag þrátt fyrir að komið hafi upp meiri halli að mati nýrra stjórnvalda á þessu ári. Það hefur verið staðfest ítrekað í umræðunni, bæði í dag og í gær. Það er ánægjulegt að hlusta hér á félags- og húsnæðismálaráðherra sem segir að hún hafi getað lækkað framlögin til umboðsmanns skuldara vegna þess að minna álag er á þeirri stofnun. Það er hægt að lækka stórlega framlög til atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þess að atvinnuástand er miklu betra en það var áður. Það var tekið fram að ekki þyrfti lengur að vera með Nám er vinnandi vegur uppi í menntamálaráðuneytinu vegna þess að fáir sæktu um, það væri ekki lengur sá hópur ungmenna sem væri að leita sér að vinnu. Þannig getur maður haldið áfram. Auðvitað eigum við að horfa á það.

Ágreiningurinn núna hefur verið um hvernig ráðstafað sé þegar svigrúm myndast. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ræddi að við sem voru í fyrri ríkisstjórn höfum verið að benda á að nú getum við gert kröfur af því við erum komin út úr ríkisstjórn. Þegar við erum að tala um til dæmis heilbrigðismálin er það sagt í fullri einlægni, hæstv. ráðherra, að við hættum að skera niður fyrir ári síðan vegna þess að við sáum og vissum að það var komið nóg. Það er ein ástæðan. Ég hafði ekki hugmyndaflug eða hafði ekki búist við því að menn mundu fara af stað aftur jafnvel þótt erfiðleikarnir væru þó nokkrir.

Eitt af því sem við lágum alltaf undir ámæli fyrir var að okkur hefði ekki tekist að stækka kökuna. Það má alltaf deila um það hvort menn hafi skapað rétta umhverfið til þess að hjól atvinnulífsins færu í gang hér. Það eru þá ákveðin vonbrigði að hæstv. ríkisstjórn sem er að taka við núna gerir ekki ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi. Hún hefur ekki trú á því að hjól atvinnulífsins snúist. Hún reiknar sér ekki tekjur þannig. Það er auðvitað mjög merkilegt. Það er enn þá merkilegra fyrir þær sakir að full ástæða væri til að skoða hvað veldur því að hagvöxtur á þessu ári verður miklu minni en reiknað var með. Kann það að vera rétt sem margir hafa sagt að ástæðan fyrir því að við svörum ekki stóru spurningunum varðandi ríkisfjármálin sé óvissa sem hafi bæst við það sem var hægt að kenna okkur um í gamalli ríkisstjórn? Að hér sé ástandið þannig að nú bíði allir eftir loforðum og fyrirheitum um stórkostlega niðurgreiðslu eða leiðréttingu á skuldum heimilanna? Ég spyr vegna þess að ég hef ekki svar. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra getur leitað svara við því vegna þess að það kemur auðvitað á óvart að okkur skuli ekki hafa miðað meira áfram. Það hefur ekkert breyst með nýrri ríkisstjórn.

Mér þótti ánægjulegt að heyra hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í lokin, það hefur raunar líka komið fram í allri umræðunni, að leiðréttingar sem þarf að gera til að bregðast við vandanum í heilbrigðiskerfinu, þá peninga eigum við að geta útvegað. Ég sagði í ræðu minn þegar við ræddum þann málaflokk, hafandi borið ábyrgð á verulegum niðurskurði þar á sínum tíma og eins og ég sagði áðan snúið við fyrir ári síðan og farið að bæta við — og í rauninni er það það sem hæstv. ráðherra var að tala um að ætti að leiðréttast núna, hækkanirnar sem komu árið 2013, þær væru að skila sér inn í árið 2014 — að það þyrfti meira til. Mér heyrist á fulltrúum allra flokka að menn séu tilbúnir að láta meiri peninga í þetta.

Ég vona að okkur takist að ná sátt um að draga til baka allar þær lækkanir eða skerðingar sem þarna voru settar plús að bæta inn þannig að við getum varið heilbrigðiskerfið og tryggt að það verði áfram í fremstu röð. Þetta er það sem við þurfum.

Við skulum ekki draga úr þeirri hugmynd og kröfu og það hafa allir talað í þá átt að það skipti mjög miklu máli við að ná hallalausum fjárlögum að breyta vöxtum í velferð.

Það er ekkert athugavert við það þegar stjórnarandstöðuflokkar rifja upp bæði kosningaloforð einstakra flokka eða stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsinguna, ég tala nú ekki um ræðu hæstv. forsætisráðherra, og bera það saman við fjárlögin 2014. Það er ekkert óeðlilegt að maður spyrji: Er búið að bæta öryrkjum og ellilífeyrisþegum upp það sem var lofað að bæta strax? Hefur því verið náð með þessum fjárlögum? Eru þeim tryggðar hækkanir í samræmi við það sem lög gera ráð fyrir, annaðhvort neysluvísitala eða launavísitala eftir því hvort er hærra? Mér heyrist svarið vera nei. Það eigum við auðvitað að halda áfram að ræða. Mér skilst að þar sé neysluvísitölu fylgt en launavísitalan sé hærri.

Þannig getum við haldið áfram. Við ræðum um tækni- og iðngreinar sem þarf að bæta. Við getum spurt þeirrar eðlilegu spurningar hvort fjárlagafrumvarpið geri ráð fyrir því. Bregst það við því?

Ég tók dæmi um einstaka stofnanir þar sem við vorum búin að ná samkomulagi um að of langt væri gengið, við mundum hætta fyrir ári síðan eins og ég sagði en nú kemur nýr ráðherra, sem kannski af einhverjum ástæðum þarf að ná niður samkvæmt fyrirskipun ríkisstjórnarinnar eða samráði, og sker svo aftur meira af viðkomandi stofnun. Við getum haldið svona áfram.

Ég ætla ekki að eyða tímanum hér. Það er komið fram á föstudagskvöld. Við fáum tækifæri til að fjalla betur um fjárlögin. Vonandi náum við samstöðu um að gera þar verulegar breytingar. Bíðum eftir því að fá álögur í heilbrigðiskerfinu, t.d. það hversu mikið einstaklingar borga þar. Það eru allir sammála um að það sé óréttlátt eins og það er í dag. Það er kominn sérstakur starfshópur sem er að reyna að vinna á því. Bíðum eftir því. Frestum öllum hugmyndum um sjúklingaskatt á meðan o.s.frv.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Eins og ég segi held ég að hún hafi verið málefnaleg. Ég hef í ræðum mínum vakið athygli á því að það er fullt af jákvæðum hlutum í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að við eigum ekkert að vera að draga úr því. En ég bið hæstv. ráðherra og aðra þingmenn að virða það við okkur að við drögum fram spurningarnar. Það er okkar hlutverk í stjórnarandstöðunni að reyna að draga fram spurningarnar og álitamálin, leiða fram ólík sjónarmið og draga fram ástæður fyrir ýmsum hlutum. Af hverju hafa menn af sér tekjumöguleika á sama tíma og það gæti hugsanlega bjargað því sem við erum að glíma við? Er það bara vegna þess að maður hefur það prinsipp að það skipti máli? Því ef það er rétt, sem er kannski meginhugmyndaágreiningurinn, að það að lækka skatta hækki tekjur af hverju kemur það þá ekki fram í frumvarpinu?

Við skulum láta þetta duga í bili. Kærar þakkir fyrir daginn og ég vona að við náum að gera á frumvarpinu verulegar breytingar til bóta og ekki síst í heilbrigðiskerfinu.