143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem ráðherra og síðasti ræðumaður komu báðir inn á að hér hefur staðið málefnaleg og ágæt umræða um fjárlög í tvo daga. Ég óskaði hæstv. ráðherra til hamingju með sitt fyrsta fjárlagafrumvarp í gær og ég gæti kannski óskað honum til hamingju með nýja stjórnarandstöðu líka. Ætli það hafi ekki einhver áhrif á það hvernig umræðan hefur farið fram í dag að komin er ný stjórnarandstaða. Ég man umræðurnar á köflum um fyrri fjárlög og hefði ég gjarnan viljað skipta, satt best að segja. Að geta átt málefnaleg skoðanaskipti og rökræðu við ábyrga og yfirvegaða stjórnarandstöðu, það er ekki það versta sem ein ríkisstjórn getur lent í.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á vandamálin við að halda fjárlög og að á undangengnum árum — hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hið sama og var búinn að leggja saman alveg ósköpin öll sem ríkisreikningur hafi orðið hærri en nam fjárlögum. Já, það er rétt. Það var erfitt að gera nákvæmar áætlanir og standa við þær í því ástandi sem var á Íslandi og ekki síst í ríkisfjármálunum eftir hrunið 2008. Hvað gera menn þegar rétt undir árslok verður að setja 33 milljarða króna inn í Íbúðalánasjóð og ríkisreikningsnefnd kemst að þeirri niðurstöðu nokkrum mánuðum síðar að það verði að afskrifa þá alla á einu bretti? Auðvitað verður ríkisreikningurinn í litlu samræmi við fjárlög þegar svoleiðis gerist, að ekki megi eignfæra eina einustu krónu af 33 milljörðum sem ríkið verður að láta frá sér til að bjarga sjóðnum. Þannig gætum við haldið áfram.

En veruleikinn er sá að hallinn á ríkissjóði var 14,6% af vergri landsframleiðslu 2008, tæp 10% 2009 og síðan fór hann niður, skref fyrir skref þangað til að nú að stjórnarliðar segja að það stefni í 31 milljarða halla. Ekki ætla þeir að láta okkur bera ábyrgð á hallanum sem þeir bjuggu til sjálfir í vor og ekki heldur hvorki í formi þess að afsala tekjum né ákveða útgjöld þó að góð væru inn í almannatryggingakerfið. Ég get fallist á að sennilega hefði stefnt í án þeirra hluta 22–25 milljarða halla, því miður. Það skýrist aðallega af tvennu: Minni hagvexti, það hefur dofnað yfir því öllu eftir því sem liðið hefur á árið, og því að eignasölutekjur munu ekki skila sér svo nemi 3–4 milljörðum. Það er stærsta einstaka skýringin. Hvað er þetta? Um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Við erum þó komin þangað. Langbesta útkoma sem við höfum séð síðan 2007, af því að menn töluðu nú mikið um 2007 fyrr í dag. Það er þó það.

Í öðru lagi varðandi það að kasta frá sér tekjum. Ég kannast að vísu ekki við að hafa notað það orðalag en afsalað sér eða sleppt út tekjustofnum og það hefur ríkisstjórnin sannarlega þegar gert og ákveðið að halda áfram á þeirri braut. Það er að mínu mati hafið yfir vafa að sjávarútvegurinn gæti borið hærri veiðigjöld en ríkisstjórnin ætlar honum að gera. Já, það þarf að vanda hvernig þau eru lögð á og láta það dreifast og leggjast á með sem réttlátustum hætti en staða sjávarútvegsins hefur aldrei verið betri til að bera veiðigjöld og leggja af mörkum heldur en nú. Hann er að upplifa sitt lengsta og mesta góðærisskeið sennilega nokkru sinni ef við lítum yfir útveginn sem heild.

Framlegðin er yfir 80 milljarðar króna. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins hefur batnað á hátt á þriðja hundrað milljarða frá 2008. Skuldirnar lækkað úr eitthvað um 550 niður í 350 milljarða og þannig gæti ég áfram talið. Hvernig eru fréttirnar? Þorskkvótinn að aukast þriðja árið í röð. Makrílkvótinn verður á mikilli uppleið, kolmunnakvótinn og staðan í ýsu er betri en við áttum von á, í gullkarfa mjög góð, karfa mjög góð o.s.frv. Það er einstakt góðæri að langmestu leyti hvað varðar lífríkið, hvað varðar gengið að sjálfsögðu og markaðirnir hafa þrátt fyrir allt haldið furðanlega þó að þeir séu ekki alveg eins góðir núna og þeir voru þegar þeir voru á toppnum. Þetta er svona.

Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu sem ríkisstjórnin ákvað að standa ekki við að leggja á, vaxandi atvinnugrein í mikilli sókn og þar með vaxandi tekjustofn. Hann verður ekki til staðar á næsta ári, ekki þarnæsta, ekki þarnæsta, ekki þarnæsta og það munar um það inn í ríkisfjármálaáætlun til nokkurra ára. Auðlegðarskattur sem á að falla út bjargar hæstv. fjármálaráðherra núna, 9,4 milljarðar á næsta ári í kassann en núll á árinu 2015. Orkuskattar, þetta eru pólitískar ákvarðanir og það munar um það inn í ríkisfjármálaáætlunina sem verður jafn döpur og mögur á árunum sem í hönd fara vegna þess meðal annars að ríkisstjórnin hefur sleppt út svona miklu af traustum tekjustofnum.

Varðandi það að ríkisstjórnin telji sig ekki skuldbundna til að standa við fjárfestingaráætlun og það sé bara afsökun fyrir því að skera ýmislegt niður, dapurlegt sem það er þá er það ekki einu sinni þannig. Ríkisstjórnin er líka að skera niður hluti sem við á botni kreppunnar, t.d. 2010, ákváðum að ráðast í til þess að reyna að byggja einhvers staðar eitthvað upp. Dæmi: Markaðssóknin í ferðaþjónustunni. Dæmi: Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði hjá sprotafyrirtækjum. Þetta var ekki ákveðið rétt fyrir kosningar 2013 eða 2012. Nei, það kom inn 2010.

Við töldum skynsamlegt að gera það þá jafnvel þótt ríkisfjármálin væru í því hörmulega ástandi sem raun bar vitni vegna þess að einhvers staðar varð að sjá einhverja glætu og byggja eitthvað upp og það var augljóst mál að fyrir Ísland skipti öllu máli að koma af stað vexti í greinum sem gætu vaxið hratt, skapað störf og gjaldeyristekjur án þess að það þyrfti of mikla stofnfjárfestingu því þá peninga áttum við ekki til. Þess vegna fórum við í markaðsátak með ferðaþjónustunni Inspired by Iceland eftir gosið og síðan Ísland – allt árið og hefur það ekki skilað?

Auðvitað er ekki hægt að mæla nákvæmlega hve stóran þátt það á í sókninni en það á örugglega sinn þátt í henni og vöxtur ferðaþjónustunnar er sennilega mikilvægasta einstaka atriðið sem veldur því þó að við höfum verið að sækja fram og til dæmis er þjónustujöfnuðurinn betri en nokkru sinni fyrr meðal annars vegna hinna miklu tekna sem samgöngur og ferðaþjónusta færir okkur inn í landið í beinhörðum gjaldeyri. Þjónustujöfnuðurinn varð jákvæður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs í fyrsta skipti í sögunni síðan mælingar hófust meðal annars vegna þess að umsvifin hafa aukist mikið yfir veturinn.

Það finnst mér mega hafa í huga. Það eru ekkert endilega rök og nógu góð rök að segja að af því að eitthvað var inni í fjárfestingaráætlun þá ætlum við ekkert að gera með það. Ef það er skynsamlegt, ef það miðar að því að ná fram vexti og störfum í nýsköpun og þróun, á þá ekki að reyna að ráðast í það? Erum við svo aum núna að við getum ekki einu sinni staðið við það sem við ákváðum 2010, að hafa 20% endurgreiðslu á rannsóknarkostnaði og setja 300 milljónir frá ríkinu í markaðssókn í ferðaþjónustu?

Varðandi stóru myndina tek ég undir að það er jákvætt að menn skuli reyna að ná hér hallalausum fjárlögum en það má deila um hvernig það er gert og það eru veikleikar í því, sem hefur komið fram í umræðunni. Nú þegar hafa menn nefnt tvo liði sem munu taka breytingum, væntanlega til umtalsverðrar hækkunar, við 2. umr. Það er boðuð ný áætlun um tækjakaup. Fínt, og vonandi verða það þá að minnsta kosti 650 milljónir sem koma inn aftur í tækjakaup á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri og það er boðað að 105 milljónir komi til Matvælastofnunar til að framkvæma ný lög um dýravelferð. Þá erum við komin í hátt yfir 700 milljónir króna, 755 milljónir, þá er afgangurinn búinn. Það þarf að vanda sig í þessu verki, ég tek undir það.

Mín langmestu vonbrigði og það sem ég hef mestar áhyggjur af eru ekki endilega þessi fjárlög því auðvitað verður að sauma þau einhvern veginn saman. Ég er langhryggastur í hjarta þegar ég horfi á ríkisfjármálaáætlunina til næstu ára. Að sjá það hér sett á blað af nýrri ríkisstjórn að við ætlum að hjakka í núllinu í þrjú ár. Með nánast engan afgang af ríkissjóði 2014, 2015 og núll 2016, því að það er innan skekkjumarka sem við eigum þá að vera yfir strikið.

Með öðrum orðum er það ekki ávísun á að við byrjum að greiða niður skuldir. Þær aukast ekki, það er gott, þær munu lækka eitthvað sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu en á nafnvirði munu þær standa í stað. Það er skítt. Það er enn þá verra að horfa til þess að þetta er ávísun á það líka að við getum hvergi bætt neitt í ef við eigum að vera á núllinu næstu þrjú árin. Þá verður ekkert hægt að gera í viðbót og með sömu rökum og ríkisstjórnin notar nú gagnvart því að skera niður fjárfestingaráætlun, stuðning við nýsköpun, rannsóknir, þróun og sprotagreinar, þá mun hún á næsta ári og þarnæsta ári segja: Nei, það er ekkert svigrúm.

Það er ávísun á kyrrstöðu og stöðnun og ég sætti mig ekki við það. Við verðum að rífa okkur út úr því fari og það er augljóst mál að eitt af því sem við getum gert í þeim efnum er að ýta kreddunum og pólitíkinni til hliðar og skoða raunsætt hvar við getum sótt einhverja viðbótarfjármuni inn í ríkissjóð, af því að það er erfitt að sjá að við spörum mikið meira útgjöld, til að geta látið eitthvað af þessu eftir okkur, að það sé einhver uppbyggingar- og sóknarblær, (Forseti hringir.) þótt ekki væri nema í litlu, á þessu hjá okkur næstu árin.