143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar eins og aðrir hafa gert að byrja á því að þakka fyrir um margt mjög málefnalega umræðu sem verið hefur hér í dag. Ég held að það fyrirkomulag að ræða einstaka efnisflokka fjárlagafrumvarpsins með þessum hætti sé vel heppnað.

Mig langar aðeins í lokin að segja almennt um fjárlagafrumvarpið að ef maður ætti út frá samanburði á því frumvarpi sem nú liggur fyrir og frumvarpinu sem var lagt fram fyrir ári að ákveða hvort maður teldist til hægri eða vinstri í pólitík væri úr mjög vöndu að ráða vegna þess að það er í sjálfu sér ekki mikil breyting á milli ára. Ég er ekki að kvarta undan því enda væri skelfilegt ef hér væri öllu kerfinu kollsteypt á milli ára og yrði gjörbreyting á ríkisrekstrinum. Ef menn eiga að ákveða þetta út frá þeim afstöðumun sem hægri og vinstri menn hafa til skattheimtu, útdeilingar og nýtingar á þeim fjármunum er þetta þegar til stykkisins kemur 10–12 þús. kall á ári fyrir mann sem er með 400 þús. kr. í laun, ef ég hef skilið þetta rétt. Um það er þá allur slagurinn.

En ég vil líka segja eins og fram hefur komið og benda á að það er reyndar óvíst að sú tekjuskattslækkun sem hér er boðuð verði raunlækkun á skattbyrði þegar breyting á persónuafslætti og vaxtabótum hefur verið bætt við. En okkur er hér, hvort sem við teljumst til hægri eða vinstri eða miðjunnar í íslenskum stjórnmálum, sameiginlegur vandi á höndum því að ríkissjóður er mjög skuldsettur. Við slíkar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að skoða öll útgjöld með gagnrýnu hugarfari og jafnframt að skoða alla tekjumöguleika gaumgæfilega.

Mig langar til þess að rifja upp nokkur efnisatriði sem við í Bjartri framtíð höfum lagt fram í þessa umræðu og gerðum meðal annars í bréfi sem við skrifuðum hinum svokallaða hagræðingarhópi fyrr í haust.

Hvert ár sem ríkissjóður eyðir um efni fram leiðir til stærri vanda fyrir þjóðina alla í framtíðinni. Björt framtíð er tilbúin til að styðja allar tillögur sem byggja á góðum rökum og upplýsingum og leiða til raunverulegs sparnaðar og betri nýtingar á fjármunum, hæfileikum, vinnu og tíma. Markmið okkar er að tryggja að borgurum landsins sé veitt sem best þjónusta og sem best skilyrði til lífsviðurværis, innan fjárhagsrammans.

Við leggjum áherslu á að horfa til lengri tíma bæði í tekjum og útgjöldum ríkisins þannig að stofnanir samfélagsins geti gert langtímaáætlanir en séu ekki háðar óvissu fjárlaga hvers árs. Ef sá rammi sem ríkið setur liggur fyrir geta allir gert nákvæmar áætlanir sem hugsanlega standast hvað varðar þá þjónustu sem vænta má en ekki síður hvaða skattarammi bíður.

Virðulegur forseti. Við höfum hvatt til róttækni. Við höfum hafnað flötum niðurskurði þar sem stofnunum er gert að hagræða einhvern veginn án þess að kafað sé dýpra í starfsemi þeirra, eðli og tilgang. Ég sakna þess að ekki sé meiri metnaður í þessum efnum í því frumvarpi sem við ræðum hér. Það þarf að skoða mjög vel tillögur ýmissa aðila, innlendra sem erlendra, um það hvernig bæta má nýtingu fjár í íslensku samfélagi og bent hefur verið á leiðir í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Við eigum að spyrja: Ef við ættum að gera hlutina frá grunni núna mundum við þá fara eins að? Mundum við reka menntakerfið með sama hætti? Heilbrigðiskerfið? Landbúnaðarkerfið?

Við getum lært meira af þeim sem gera hlutina vel. Aðrar þjóðir hafa náð langt í rafrænni stjórnsýslu, til að mynda Eistland með tilheyrandi sparnaði. Oft hefur verið bent á skólakerfið í Finnlandi sem góða fyrirmynd, bæði hvað varðar hagræði og góða þjónustu. Nýsjálendingar gjörbyltu landbúnaðarkerfi sínu og selja núna afurðir út um allan heim án ríkisstyrkja. Við þurfum að spyrja okkur hvað við getum gert betur.

Fjárþörfin í samfélaginu er gríðarleg. Það þarf að lækka skuldir ríkissjóðs og standa straum af vaxtakostnaði. Viðhaldsverkefni hrannast líka upp og starfsfólk er víða langþreytt. Þessar kringumstæður vinda upp á sig. Miklar skattalækkanir eða skuldaniðurfellingar með fé sem að öðrum kosti getur gagnast ríkissjóði í glímunni við þessi vandamál eru vafasamar. Það þarf að skoða vel fórnarkostnaðinn af öllum aðgerðum. Ef peningur er notaður í eitthvað eitt er ekki hægt að nota hann í annað.

Við tökum undir að skatta- og gjaldalækkanir geta í sumum tilvikum aukið efnahagsleg umsvif. Þær þurfa hins vegar að vera almennar og mega ekki beinast einungis að einstökum atvinnugreinum sem búa við góð skilyrði. Einnig mundi einfaldara skatta-, tolla- og gjaldaumhverfi leysa verulegan kraft úr læðingi. Opið markaðskerfi með óheftum viðskiptum við aðrar þjóðir væri jafnframt snilld.

Við hvetjum líka eindregið til þess að horft verði til aukinnar beinnar tekjuöflunar af auðlindum þjóðarinnar bæði til lands og sjávar. Arður af orkusölu til erlendra aðila er lítill og arður af sjávarútvegi í sameiginlega sjóði getur verið meiri. Þá er það líka skoðun Bjartrar framtíðar að arður ríkisins af fjármálastarfsemi, í gegnum opinbert eignarhald á fjármálastofnunum, sé best nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og til fjárfestinga í nýsköpun og stuðningi við atvinnugreinar, svo sem skapandi greinar og hugverka- og tækniiðnað, sem geta aukið tekjur umtalsvert til framtíðar.

Það var því von okkar að ríkisstjórnin héldi sig í grundvallaratriðum við áður samþykkta fjárfestingaráætlun. Raunin varð önnur.

Hagræðing er fólgin í því að gera hlutina betur, skila svipaðri þjónustu, helst betri, fyrir minni tilkostnað og minnka sóun. Það er stefna Bjartrar framtíðar að ríkisvaldið skuli ekki vera umfangsmikið en þjónusta þess á mikilvægum sviðum þeim mun betri. Til þess að ná því markmiði þarf að nútímavæða þjónustu ríkisins og stofnanir þess en ekki síður þarf að hugsa þjónustumynstur ríkisins upp á nýtt og skilgreina betur hvaða málaflokkum hið opinbera á að skipta sér af.

Uppbygging verkferla, breytt skipulag stofnana með áherslu á ábyrgð og skýra verkaskiptingu getur falið í sér kostnað í upphafi en hagræðingu til lengri tíma litið. Sameining stofnana ríkisins í færri en stærri rekstrareiningar sem bjóða upp á samræmda þjónustu um allt land er forsenda fyrir slíkri uppbyggingu. Notkun upplýsingatækni býður upp á mikil tækifæri til hagræðingar. Það er trú okkar að slík tækifæri sé mjög víða að finna í opinberum rekstri.

Með þessi sjónarmið að leiðarljósi er þingflokkur Bjartrar framtíðar meira en reiðubúinn til þess að leggja sitt af mörkum í þeirri miklu vinnu sem fram undan er í fjárlagavinnunni.

Ég vildi í lokaræðu minni í dag rifja upp þessi efnisatriði sem við í Bjartri framtíð lögðum áherslu á í upphafi starfs þingsins í haust, en ég vil líka segja þetta vegna þess að hingað í dag hafa komið í þennan ræðustól hæstv. ráðherrar sem talað hafa um ýmis verkefni sem þeir vildu gjarnan ráðast í en hafa ekki pening til þess að gera. Það er hins vegar þannig að hæstv. ríkisstjórn á sér enga afsökun fyrir því að hafa ekki í sumar útfært náttúrupassa sem hefði getað skilað að minnsta kosti milljarði í kassann. Það er ótrúverðugt að það hafi ekki verið hægt á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisstjórnin kom saman að útfæra þær hugmyndir.

Og ríkisstjórnin á enga afsökun fyrir því að ákveða að hætta við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, boðaða með góðum fyrirvara þannig að greinin hefði getað búið sig undir hana og gert ráð fyrir henni í verðskrám sínum.

Ríkisstjórnin á sér enga afsökun fyrir því að hafa ekki nýtt sumarið og undanfarna mánuði til að útfæra hið sérstaka veiðigjald svo að það gæti tekið mið af afkomu ólíkra sjávarútvegsfyrirtækja og þannig skilað aukalega frá því sem nú er milljörðum í ríkiskassann.

Þetta er spurning um pólitíska forgangsröðun og það er kannski það sem birtist einna helst í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er ekki beinlínis í útgjöldunum eða í því til hvers peningarnir eru ætlaðir þar sem pólitíkin birtist. Hún birtist á tekjuhliðinni, í því hvernig fjármunanna er aflað.

Það er ótrúverðugt — og ég er ekki að saka hæstv. fjármálaráðherra um það hér í dag heldur bara almennt hvernig umræðan hefur spilað sig í dag — að tala um að það vanti peninga á sama tíma og að menn vilji gera hitt og gera þetta, á sama tíma og þeir gefa raunverulega frá sér möguleikana á því að auka tekjur ríkisins. Þegar kemur að því að stækka kökuna eins og sjálfstæðismönnum er svo gjarnt að tala um er afskaplega lítið að finna í þeim efnum í áherslunum sem birtast í fjárlagafrumvarpinu. Því miður vegna þess að við þurfum á því að halda að styrkja atvinnulífið og fjölga stoðum, fjölga sprotum og því miður erum við ekki að gera það hér.