143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég kem hér undir lok umræðunnar eingöngu til að þakka fyrir þá tvo daga sem við höfum verið að ræða fjárlagafrumvarpið. Það er augljóst að það er tekist á um nokkur áhersluatriði og forgangsröðun alveg eins og vænta mátti. Ég vonast til þess að samstarf geti verið gott við fjárlaganefnd um vinnuna fram undan. Við eigum eftir að taka við reiðinnar býsn af umsögnum og fjárlagabeiðnum um að breyta hinum ýmsu liðum. Í því sambandi er ágætt fyrir þingmenn að velta því fyrir sér hvernig það leggst í þá að fara smám saman að leggja af þau vinnubrögð og taka upp vinnubrögð sem horfa meira á ramma og framlög til einstakra málefnasviða en ekki eyða öllum tímanum í einstaka liði. Slík er hugsunin í frumvarpinu til nýrra opinberra fjármála, að við ræðum stóru myndina í auknum mæli og ræðum minna einstaka liði. Það á allt eftir að koma í ljós hvernig þinginu kemur til með að ganga að venja sig við þau nýju vinnubrögð, það nýja verklag, ef til þess kemur. Eins og allir vita og ég hef áður sagt er það auðvitað sérstakt þingmál og önnur ákvörðun.

Ég lýsi sömuleiðis ánægju minni með það að ég heyri ekki nokkurn lýsa því sem sinni stefnu á þessu stigi málsins að það sé eðlilegt að örva fjárfestingu eða bæta í rekstur með því að fara með fjárlögin öfugu megin við núllið. Þess vegna vonast ég til þess sömuleiðis að okkur takist að sameinast um það markmið að stöðva skuldasöfnunina. Við höfum sameiginlega gríðarlega mikla hagsmuni af því. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á geta skuldirnar farið tiltölulega hratt lækkandi ef við höldum rétt á spilunum í framhaldinu. Við erum þegar öllu er á botninn hvolft ekki í ómögulegri stöðu. Ef spár ganga eftir fyrir árið 2014 erum við með skuldahlutfallið undir 80% af landsframleiðslu. Mjög mörg ríki mundu vilja vera komin nú þegar í þá stöðu. Mörg ríki innan Evrópusambandsins eru komin í mikinn greiðsluvanda og halla og sjá ekki fram á að vinda ofan af því. Við Íslendingar höfum enga ástæðu til að kvarta eitthvað sérstaklega þó að okkar bíði verkefni vegna þess að allt í kringum okkur eru menn að fást við miklu þyngri og erfiðari verkefni og miklu meiri niðurskurð en við horfum upp á hér.

Í því samhengi finnst mér sjálfsagt að halda því á lofti að mín skoðun er sú að við eigum ávallt að gera kröfu um veltutengt aðhald í fjárlögunum, á hverju einasta ári, sama hvort gengur vel eða illa, við eigum ávallt að gera þá kröfu að við finnum áfram og þróum leiðir, m.a. með nýrri tækni, til þess að auka framleiðnina í opinbera rekstrinum. Það er venjan í fjölmörgum öðrum þjóðþingum og það er nokkuð sem við eigum að tileinka okkur.

Að svo mæltu ítreka ég það sem fram kom í framsöguræðu minni, ég óska eftir því að málið gangi þá til 2. umr. og til fjárlaganefndar og geri mér grein fyrir því að eins og vanalega erum við rétt að stíga fyrstu skrefin. Ég óska nefndinni góðs gengis í störfum sínum.