143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

efnahagsmál.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tel svo sem ekki ástæðu til að gera ráð fyrir því að Seðlabankinn muni í nóvember spá minni hagvexti en spáð er nú. Og ef bankinn tekur með í reikninginn að hér er komin ný ríkisstjórn, sem mun ýta undir fjárfestingu og almenna velmegun og hagþróun í landinu, hlýtur hann að breyta hagvaxtarspá sinni til samræmis við það. En hvað sem því líður er rétt að við vinnu fjárlaganefndar taki menn mið af ólíkum aðstæðum. Þar getur að sjálfsögðu komi til greina, eins og alltaf er, að menn geri bæði breytingar hvað varðar tekjuöflun og útgjöld. Menn geta annaðhvort ákveðið að forgangsraða eitthvað upp á nýtt eins og iðulega er gert — menn hafa töluvert rætt málin í því sambandi. En til að viðhalda hallalausum fjárlögum, og ég geri ráð fyrir að þingið ætli að gera það, þyrfti þá að finna aðra staði þar sem hægt væri að spara eða finna nýja tekjusköpunarmöguleika. Þeir tekjumyndunarmöguleikar verða að sjálfsögðu líka að taka mið af því sem hv. þingmaður nefndi í upphafi, þ.e. mikilvægi þess að hagvöxtur komist af stað.

Eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir þá hefur það veruleg áhrif á hver niðurstaða fjárlaga verður, hver niðurstaða næsta árs verður, hvort tekst að koma hagvexti af stað. Það væri því skaðlegt að ráðast í aðgerðir sem væru til þess fallnar að hefta hagvöxt í landinu. Það mundi ekki skapa raunverulegar tekjur fyrir ríkið. Vissulega er vandi að ná hallalausum fjárlögum. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að útlista prýðilega hvernig hægt er að ná því markmiði. Þingið mun síðan meta hvort einhvers staðar megi hnika einhverju til og forgangsraða upp á nýtt en væntanlega mun það halda í það prinsipp að fjárlög verði hallalaus fyrir árið 2014.