143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

efnahagsmál.

[13:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna tvennt hér um leið og ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Í fyrsta lagi er það rétt að fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki og það er ekki síst vegna þess að fjárfesting hins opinbera hefur dregist mikið saman. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sé nánast tekin út og vísað til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að taka niður sérstakt veiðigjald. Ég hef áhyggjur af því, miðað við þetta og miðað við óvissu um þau stóriðjuáform sem hæstv. forsætisráðherra nefnir, sem ég tel raunar ekki skynsamlega fjárfestingu efnahagslega, að þessar horfur kunni að versna. Ég hefði frekar viljað sjá fjárfestingu aukast í fjölbreyttari atvinnugreinum.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, út frá orðum hans, hvort hann sé mér ekki sammála um það sjónarmið að ekki verði gengið mikið lengra í því að skera niður innviðina. Nefni ég þá sérstaklega heilbrigðisþjónustuna, skólakerfið og hið félagslega kerfi, að það hljóti að verða leiðarljós Alþingis ef fara þarf í frekari niðurskurð milli umræðna, þ.e. ef menn vilja halda sig við þetta markmið; og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að skila fjárlögum í halla.