143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

óskráðar íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum.

[13:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Samkvæmt fréttum nú síðsumars eru um 700 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu leigðar út til gistingar fyrir ferðamenn án tilskilinna leyfa. Áhrif þess eru einkum fjórþætt.

Í fyrsta lagi eru það öryggissjónarmið, þ.e. að húsnæði sem ekki hefur leyfi hefur heldur ekki verið tekið út af yfirvöldum brunavarna og því gætu slys á ferðamönnum orðið dýrkeypt.

Í öðru lagi eru það fjárhagsleg áhrif, þ.e. að ekki eru greidd leyfisgjöld af starfseminni, ekki vaskur af gistingunni og ekki tekjuskattar eða fjármagnstekjuskattar eftir því sem við á.

Í þriðja lagi hefur þessi útleiga að öllum líkindum hækkað íbúðaverð á svæðinu með slæmum afleiðingum fyrir húsnæðiskaupendur, einkum þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn.

Í fjórða lagi hefur þessi þróun væntanlega leitt af sér hækkun á leiguverði sem var þó ærið fyrir hér á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á að hafa uppi eftirlit með þessari starfsemi en fram kom í fréttum í sumar að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins kvaðst ekki ráða við það verkefni sökum skorts á mannafla.

Mig langar því að beina þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir aukafjárveitingu til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að auðvelda honum eftirlit með þessari starfsemi. Komið hefur fram að þessir aðilar eru með heimasíðu þannig að það ættu að vera hæg heimatökin að hafa uppi á þeim. Því langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra hyggst beita sér fyrir því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fái fjármagn til að stunda slíkt eftirlit.